05. október 2022

Skilyrði til að fella niður sakarkostnað

Umboðsmaður gerir ekki athugasemd við úrskurð dómsmálaráðuneytis vegna kvörtunar yfir synjun um niðurfellingu sakarkostnaðar sem viðkomandi taldi sig eiga rétt á út af tekju- og eignaleysi. Maðurinn hefði sjálfur þurft að færa sönnur á þá stöðu.

Bar hann því við að fá ekki vinnu í samræmi við menntun og starfsreynslu og ekki væri fyrirsjáanlegt að sú staða breyttist á næstu árum. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist á því að ekkert hefði legið fyrir um að geta hans til að afla sér fjár væri skert, svo sem vegna örorku eða alvarlegra veikinda, og að hann hefði ekki fært rök fyrir tekjuleysi sínu. Því lægi hvorki nægilega ljóst fyrir að hann ætti ekki eignir né að hann myndi ekki hafa tekjur til að standa straum af sakarkostnaðinum.

Með hliðsjón af lögum og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu taldi umboðsmaður að sönnunarbyrði þess að maðurinn gæti ekki aflað sér tekna, þannig að nægilega ljóst væri að hann gæti ekki greitt sakarkostnað, hvíldi á honum sjálfum. Umboðsmaður benti á að viðkomandi væri hvorki öryrki né ófær um að afla sér tekna vegna slyss eða sjúkdóms. Tekjuleysið stafaði af tímabundnum ástæðum og ekki hefðu verið lögð fram gögn þeim til stuðnings, til að mynda um virka atvinnuleit sem ekki hefði borið árangur. Aukinheldur hefði honum verið gert kleift að taka til varna með fullnægjandi hætti án tillits til þess hvort hann hefði möguleika á að greiða útlagðan sakarkostnað. Ekki væru því forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins.

  

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11524/2022