08. nóvember 2022

Annmarkar á rafrænni stjórnsýslu

Ekki er heimilt að einskorða meðferð stjórnsýslumála við rafræna meðferð og stjórnvöldum sem taka upp slíka stjórnsýsluhætti er því skylt að bjóða upp á hefðbundna meðferð máls.

Umboðsmaður áréttar þetta í áliti vegna Loftbrúar Vegagerðarinnar og að ekki hafi verið heimilt að búa svo um hnútana að aðeins væri hægt að sækja um afsláttarkóða með því að skrá sig inn í þjónustugáttina island.is með rafrænum skilríkjum. Hann benti líka á að þótt opinberum aðilum verði skylt að taka upp rafræna meðferð stjórnsýslumála þýði það ekki að borgararnir séu skyldugir til að nýta þá leið.

Undanfarin ár hafa umboðsmanni borist ýmiss konar kvartanir í tengslum við innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu. Heilt á litið virðist sem tæknilegum lausnum sé í of miklum mæli hrint í framkvæmd án þess að nægilegur gaumur sé gefinn að því áður, hvort fyrirhugað kerfi fullnægi kröfum sem gerðar eru í lögum til meðferðar stjórnsýslumáls. Eins og umboðsmaður hefur áður bent á getur skapast sú hætta að þau sem standa höllum fæti gagnvart rafrænni miðlun njóti lakari þjónustu en ella eða jafnvel alls ekki þeirrar þjónustu sem þau þó eiga rétt á samkvæmt lögum. Ítrekar hann því mikilvægi þess að að þeim sem koma að hönnun rafrænna kerfa stjórnsýslunnar sé í upphafi ljóst hvaða lagalegu og faglegu kröfur slík kerfi þurfa að uppfylla.

Í ljósi þess að Vegagerðin hefur þegar hafið vinnu til að bæta úr þeim annmörkum Loftbrúarinnar sem komu í ljós við skoðun umboðsmanns taldi hann ekki tilefni til að beina sértækum tilmælum til stofnunarinnar. Áfram verður þó fylgst með framvindunni og óskað eftir upplýsingum um framgang úrbótanna. Að öðru leyti mæltist umboðsmaður til þess að Vegagerðin tæki framvegis mið af sjónarmiðum í álitinu. Vegna álitaefnanna í álitinu var bæði forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu sent afrit af því.

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. F118/2022

  

  

Tengd frétt

Vegagerðin spurð hvort rafræn skilríki séu nauðsynleg til að nýta Loftbrú