10. nóvember 2022

Gögn vegna skattrannsóknar geta verið undanþegin upplýsingalögum

Gögn sem lúta að skattrannsókn geta verið undanþegin upplýsingalögum og því heimilt að synja beiðni um aðgang að þeim.

Á þetta reyndi eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti niðurstöðu embættis skattrannsóknarstjóra um að gögn, sem hann hafði aflað í tengslum við rannsókn á málefnum félags, lytu að rannsókn sakamáls og réttur til aðgangs að þeim yrði því ekki reistur á ákvæðum upplýsingalaga.

Með hliðsjón af samspili upplýsingalaga og laga og reglna á sviði sakamálaréttarfars og skattaréttar taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að gögnin í þessu tiltekna tilviki væru undanþegin upplýsingalögum. Leggja yrði til grundvallar að meginmarkmið rannsóknar skattrannsóknarstjóra samkvæmt þágildandi reglum hefði verið að afla sönnunargagna í málum vegna brota á skattalöggjöfinni og undirbúa mögulega refsimeðferð skattaðila af því tilefni. Rannsókn lögreglu á máli sem skattrannsóknarstjóri vísaði til hennar í framhaldi af stjórnsýslurannsókn hefði að meginstefnu lotið að sömu málsatvikum og réttargrundvelli. Þá yrði að miða við að gögn stjórnsýslumálsins hefðu sjálfkrafa orðið hluti sakamálarannsóknarinnar. Í ljósi þessa yrði að öllu jöfnu að líta á málsmeðferð skattrannsóknarstjóra sem „rannsókn sakamáls“ í skilningi upplýsingalaga sem leiddi þá til þesss að gögn sem lutu að rannsókninni teldust undanþegin gildissviði laganna.

 

Lokabréf umboðsmanns í máli nr. 11736/2022