28. nóvember 2022

Fyrningarfrestur refsidóma

Afmörkun dómsmálaráðuneytisins á upphafi fyrningarfrests vegna refsidóma var ekki í samræmi við lög að áliti umboðsmanns.

 

Á þetta reyndi þegar fangi kvartaði yfir því að hafa ekki fengið refsitíma sinn styttan. Taldi hann að þrír dómar af sjö sem hann átti að hefja afplánun á samkvæmt tilkynningu Fangelsismálastofnunar hefðu verið fyrndir þegar tilkynningin var birt honum og afplánun hófst.

Ráðuneytið taldi að miða bæri upphaf fyrningarfrest fangelsisdóms við þann dag sem dómur bærist Fangelsismálastofnun til fullnustu frá ríkissaksóknara. Vísaði það í þeim efnum til athugasemda með lögum um fullnustu refsinga. Umboðsmaður benti aftur á móti að hafa yrði í huga grunnreglu íslensks réttar um lögbundnar refsiheimildir og það almenna lögskýringarsjónarmið að vafa um efnislegt inntak refsiákvæða skuli túlka sakborningi í hag. Ef ekki leiddi annað af dómsorði mætti, samkvæmt hegningarlögum, fullnægja refsidómi þegar hann væri endanlegur svo sem vegna þess að almennur áfrýjunarfrestur væri liðinn, fallið hefði verið frá áfrýjun eða fyrir lægi dómur Hæstaréttar. Þá taldi umboðsmaður að nokkuð hefði skort upp á að gætt hefði verið að málshraðareglum stjórnsýsluréttar í málefnum fangans. Mæltist umboðsmaður til að dómsmálaráðuneytið tæki málið til meðferðar að nýju ef eftir því yrði leitað og hagaði þá meðferð og úrlausn þess í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11410/2021