A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að ríkissaksóknara, Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðuneytinu og laut að stjórnsýslu þeirra í tengslum við fullnustu á sjö refsidómum sem A hlaut á árabilinu 2014 til 2020. Laut kvörtunin nánar tiltekið að þeirri ákvörðun ráðuneytisins að hafna kröfu A um að felld yrði úr gildi tilkynning Fangelsismálastofnunar um afplánun framangreindra dóma og að lagt yrði fyrir stofnunina að gefa út nýja tilkynningu um afplánun þar sem refsitíminn væri ákveðinn 795 dagar í stað 1095. Var krafan byggð á því að þrír nánar tilgreindir dómar samkvæmt tilkynningu Fangelsismálastofnunar hefðu verið fyrndir þegar upphafleg ákvörðun stofnunarinnar var birt A og hann hóf afplánun. Kvörtun A til umboðsmanns var á því reist að tafir sem urðu annars vegar við það að fyrrgreindir dómar bærust Fangelsismálastofnun til fullnustu frá ríkissaksóknara og hins vegar við boðun A í afplánun hefðu átt að leiða til þess að þeir teldust fyrndir.
Í ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í máli A var lagt til grundvallar að upphaf fyrningarfrests fangelsisdóms skyldi miða við þann dag sem dómur berst Fangelsismálastofnun til fullnustu frá ríkissaksóknara. Vísaði ráðuneytið í því sambandi til athugasemda með lögum um fullnustu refsinga þar sem fram kæmi að refsidómar væru fullnustuhæfir þegar þeir hefðu borist Fangelsismálastofnun eftir að hafa verið birtir með sannanlegum hætti. Eftir að hafa rakið forsögu og þróun lagaákvæða um fyrningu refsidóma og upphaf fyrningar, fullnustuhæfi refsidóma og fullnustu refsingar var það álit umboðsmanns að téð ummæli í lögskýringargögnum gætu ekki haggað grunnreglum íslenskra laga um réttaráhrif og þar með fullnustuhæfi refsidóma þegar litið væri til efnis þeirra laga og almennra sjónarmiða um lögskýringu. Taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að refsidómi mætti fullnægja í skilningi 2. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga þegar hann væri endanlegur, svo sem vegna þess að almennur áfrýjunarfrestur væri liðinn, fallið hefði verið frá áfrýjun eða fyrir lægi dómur Hæstaréttar, enda leiddi ekki annað af dómsorði. Það var því álit umboðsmanns að sú afmörkun ráðuneytisins á upphafi fyrningarfrests samkvæmt téðum ákvæðum hegningarlaga, að miða upphaf fyrningar í máli A við það tímamark þegar dómar í málum hans bárust Fangelsismálastofnun frá ríkissaksóknara, hefði ekki verið í samræmi við lög.
Að virtum þeim hagsmunum sem í húfi voru fyrir A, taldi umboðsmaður einnig að þegar atvik málsins væru virt heildstætt væri ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að nokkuð hefði skort á að þau stjórnvöld sem um ræddi í málinu hefðu með fullnægjandi hætti gætt að því að málefni A væru afgreidd í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um málshraða.
Umboðsmaður mæltist til þess að dómsmálaráðuneytið tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis af hans hálfu, og hagaði þá meðferð og úrlausn málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu sem og í framtíðarstörfum sínum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 21. nóvember 2022