07. desember 2022

Aðgangur að sjúkraskrá látins manns fæst ekki einvörðungu vegna náinna fjölskyldutengsla

Náin fjölskyldutengsl geta almennt ekki ein og sér leitt til þess að heimilt sé að veita aðgang að sjúkraskrá látinnar manneskju. Ef sú væri raunin þá væri ekki mælt fyrir í lögum um það mat sem fara þarf fram þegar beiðni um slíkt berst frá nánum aðstanda.

 

Kvartað var yfir ákvörðun embættis landlæknis sem staðfesti synjun Landspítala við beiðni um aðgang að upplýsingum í sjúkraskrá látins föður. Byggðist afstaða stjórnvalda á því að ekki hefði verið sýnt fram á svo veigamikla hagsmuni aðstandanda að undantekningarákvæði laga um sjúkraskrár ætti við í málinu. Ekki yrði fallist á að með vísan til sögulegs og menningarlegs gildis upplýsinganna hefði verið sýnt fram á nægilega ríkar ástæður fyrir því að veita aðgang að upplýsingunum.

Umboðsmaður rakti tildrög og tilurð ákvæðis laga um sjúkraskrár sem mælir fyrir um rétt aðstandenda til aðgangs að sjúkraskrám látinna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Mismunandi hagsmunir gætu ráðið úrslitum hverju sinni um hvort það ætti við. Þá benti hann á að upplýsingar um heilsufar manna njóti verndar bæði friðhelgisákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Enda þótt rökstuðningur embættis landlæknis hefði mátt vera ítarlegri væru ekki forsendur til að gera athugasemdir við mat þess m.t.t. þess svigrúms sem lög gera ráð fyrir að stjórnvöld hafi við þessar aðstæður.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11685/2022