Í kjölfar skýringa ríkislögreglustjóra og að upplýsingar á vefsíðu hans hafa verið leiðréttar er ekki tilefni til að umboðsmaður haldi áfram athugun sinni á fyrirkomulagi umsókna um skotvopnaleyfi.
Tilurð hennar var frétt í lok október um að hnökrar væru á nýju rafrænu skotvopnakerfi lögreglu og að ekki væri tekið við umsóknum nema á rafrænu formi. Í svari við fyrirspurn umboðsmanns greindi ríkislögreglustjóri frá því að umsækjendur væru hvattir til að nýta rafræna ferlið en að öðrum kosti gætu þeir snúið sér til lögregluembættis í sinni heimbyggð. Einnig væri hægt að fá útgefið bréflegt skírteini á lögreglustöðvum. Upplýsingar á vefsíðu embættisins um að aðeins væri hægt að gera þetta rafrænt hefðu verið leiðréttar. Jafnframt greindi ríkislögreglustjóri frá prófunum á hinu rafræna skotvopnakerfi og að þrátt fyrir þær hefðu hnökrar komið í ljós á fyrstu vikum notkunar. Nú væru þó engin vandkvæði á notkun kerfisins og hefur umboðsmaður því lokið athugun sinni.
Lokabréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra
Svarbréf ríkislögreglustjóra til umboðsmanns
Fyrirspurnabréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra