29. desember 2022

Kæruleiðbeiningum lögreglu ábótavant og málsmeðferð ríkissaksóknara ófullnægjandi

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra gætti ekki að leiðbeiningarskyldu sinni með viðhlítandi hætti þegar kæranda var tilkynnt um að fallið hefði verið frá saksókn vegna líkamsárásar. Þá tók ríkissaksóknari ekki fullnægjandi afstöðu til þess hvort málið væri tækt til efnismeðferðar hjá honum þótt kærufrestur væri liðinn.

 

Athugun umboðsmanns beindist að því hvort frávísun ríkissaksóknara hefði verið í samræmi við lög. Þótt það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að tilkynna brotaþola sérstaklega um ákvörðun lögreglustjórans þá var það ekki í ósamræmi við lög að senda honum afrit af tilkynningu til sakbornings um að fallið hefði verið frá saksókn. Aftur á móti yrði ekki fallist á að ráða hefði mátt af henni að brotaþoli nyti sambærilegrar heimildar og sakborningur til að kæra ákvörðun lögreglustjórans. Ástæða hefði verið til að leiðbeina honum sérstaklega um það og því ekki verið farið að lögum þar að lútandi.

Í stjórnsýslulögum er mælt fyrir um heimild til að taka stjórnsýslukæru til meðferðar þrátt fyrir að hún berist að liðnum kærufresti ef afsakanlegt verður talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Umboðsmaður gat ekki ráðið að ríkissaksóknari hefði, eins og honum bar sem æðra stjórnvaldi við þessar aðstæður,  lagt mat á hvort þessi skilyrði væru fyrir hendi og þá einkum í ljósi þess að kæruleiðbeiningar lögreglu til brotaþola voru ófullnægjandi. Mæltist hann til að ríkissaksóknari tæki kærumálið til meðferðar á ný, ef leitað yrði eftir því, og færi þá með það í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þá var lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra sent álitið til upplýsingar.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11738/2022