24. janúar 2023

Dómsmálaráðherra spurður um „rafvarnarvopn“

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá dómsmálaráðherra á breytingum á reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum með vísan til „rafvarnarvopna“ og/eða „rafbyssa“.

Í bréfi umboðsmanns til ráðherra í gær er m.a. bent á að samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands skuli halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Með hliðsjón af því og aðdraganda málsins, eins og hann var rakinn í fjölmiðlum, er ráðherra beðinn um eftirfarandi upplýsingar og skýringar eigi síðar en 6. febrúar nk:  

  1. Þess er óskað að ráðherra upplýsi hvenær hann hafi undirritað breytingu á fyrrgreindum reglum á þá leið að lögreglu sé heimiluð notkun svonefndra rafvarnarvopna.
  2. Þess er óskað að ráðherra upplýsi annars vegar hvenær umræddar reglur voru sendar til birtingar í Stjórnartíðindum og hins vegar hvort þær hafi verið sendar og/eða kynntar ríkislögreglustjóra sérstaklega. Þá er einnig óskað upplýsinga um hvort ráðherra hafi gefið ríkislögreglustjóra einhver fyrirmæli um undirbúning fyrir framkvæmd reglnanna og þá án tillits til birtingar þeirra í Stjórnartíðindum.
  3. Þess er óskað að ráðherra upplýsi hvort honum hafi verið kunnugt um þá afstöðu forsætisráðherra sem áður greinir að samtal um þetta mál þyrfti að eiga sér stað innan ríkisstjórnar.
  4. Þess er óskað að ráðherra upplýsi og skýri hvort og þá á grundvelli hvaða mats fullnægt hafi verið fyrrgreindum áskilnaði 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 115/2011 og 17. gr. stjórnarskrárinnar viðvíkjandi uppburði mála í ríkisstjórn og þá m.a. með tilliti til þess hvort téð stjórnvaldsfyrirmæli hafi falið í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar.

Að lokum er þess óskað að umboðsmanni verði afhent afrit þeirra gagna sem varpað geta ljósi á málefnið, þ.m.t. undirritað eintak umræddra breytingareglna og staðfestingu á sendingu þeirra til birtingar í Stjórnartíðindum.

  

  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra