01. febrúar 2023

Starfsmannamál þjóðkirkjunnar heyra ekki undir eftirlit umboðsmanns

Eftir síðustu breytingar á lagalegri stöðu þjóðkirkjunnar telur umboðsmaður að starfsmannamál hennar falli alfarið utan starfssviðs hans.

Á þetta reyndi þegar sóknarprestur, sem skipaður var í tíð eldri laga, kvartaði yfir því að biskup hefði leyst hann tímabundið frá störfum. Í því sambandi vísaði hann m.a. til þess að samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laga frá 2019, sem tóku mið af viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, skyldi hann halda þeim réttindum og skyldum sem af skipun leiddi út skipunartíma sinn.

Umboðsmaður rakti hvernig breytingar á lögum hefðu leitt til þess að prestar væru ekki lengur embættismenn eða opinberir starfsmenn og hefði hann þ.a.l. talið að ákvarðanir um nýráðningar presta féllu nú utan starfssviðs hans. Í þessu ljósi taldi hann ekki unnt að líta svo á að í fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði fælist annað en árétting á óbreyttri réttarstöðu viðkomandi gagnvart kirkjunni sem vinnuveitanda við þær breytingar sem gerðar hefðu verið í átt að fullu sjálfstæði. Gæti þetta því hvorki haggað sjálfstæðri stöðu þjóðkirkjunnar né því að prestar, þ. á m. þeir sem skipaðir voru í tíð eldri laga, teldust ekki lengur til embættismanna eða opinberra starfsmanna.

Þá gerði umboðsmaður grein fyrir því að starfssvið hans tæki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og einungis til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefði að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Var niðurstaðan sú að mál sóknarprestsins félli utan starfssviðs umboðsmanns og gæti kvörtunin þar af leiðandi ekki komið til efnislegrar skoðunar.

 

 

Bréf umboðsmanns í máli nr. 11959/2022