08. febrúar 2023

Aðbúnaður kvenfanga á Hólmsheiði og Sogni skoðaður

Umboðsmaður og fjórir starfsmenn hans skoðuðu í gær og dag aðstæður og aðbúnað kvenna í fangelsunum á Hólmsheiði og Sogni.

Þetta er liður í OPCAT-eftirliti umboðsmanns með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja. Að þessu sinni er sjónum beint sérstaklega að konum í fangelsum og eru heimsóknirnar hluti af viðameiri athugun á afplánun þeirra sem síðan verða gerð skil í svokallaðri þemaskýrslu. Rætt var við þær, starfsfólk og stjórnendur í fangelsunum ásamt því að aðbúnaður var skoðaður sérstaklega með tilliti til þarfa kvenna. Samhliða eru um þessar mundir tekin viðtöl við fyrrverandi fanga þar sem þær lýsa reynslu sinni af fangelsisvist á sínum tíma.

Þetta er önnur heimsóknin í bæði fangelsins vegna OPCAT-eftirlits umboðsmanns en þær fyrstu þar sem sjónum er einvörðungu beint að kvenföngum. Eftir fyrri heimsókn umboðsmanns á Sogn var m.a. bent á að skoða þyrfti hvort vistun kvenna og karla saman í opnum fangelsum tæki nægjanlegt mið af aðstæðum, öryggi og þörfum kvenna.  

  

  

Tengd frétt

Skoða þarf aðstæður og öryggi kvenna sem vistast með körlum í opnum fangelsum

 

Skýrslur

Fangelsið Sogni

Fangelsið Hólmsheiði