15. febrúar 2023

Ekki lagaheimild fyrir stjórnvaldssekt vegna heimagistingar

Sýslumaður hafði ekki fullnægjandi lagaheimild til að leggja stjórnvaldssekt, vegna óskráðrar heimagistingar, á umsjónarmann sem sá um rekstur eignar. Úrskurður ráðuneytis sem staðfesti ákvörðun sýslumanns var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt lögum verður sá sem býður upp á heimagistingu annaðhvort að hafa lögheimili þar eða vera eigandi húsnæðisins og hafa það til persónulegra nota. Skráningarskylda vegna heimagistingar hvílir jafnframt á þeim sem uppfyllir þessi skilyrði. Í þessu tilfelli uppfyllti sú sem fékk stjórnvaldssektina hvorugt skilyrða og því ekkert sem gat fellt skráningarskylduna á hana. Skort hefði því heimild að lögum til að leggja stjórnvaldssekt á viðkomandi.

Þá vakti umboðsmaður athygli á að ráðuneytinu hefði borið að rannsaka málið til hlítar og taka rökstudda afstöðu til þess hvort sú lagaheimild, sem byggt var á, heimilaði álagningu stjórnvaldssektar. Ábending um að viðkomandi ætti ekki fasteignina hefði gefið fullt tilefni til þess að kanna stöðu viðkomandi nánar.

Var þeim tilmælum beint til menningar- og viðskiptaráðuneytisins, sem nú fer með málaflokkinn, að taka málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11394/2021