17. febrúar 2023

Forsætisráðherra spurð út í reglur um „rafvarnarvopn“

Í framhaldi af svari dómsmálaráðherra við spurningum um framgöngu hans í tengslum við endurskoðun reglna, sem heimila lögreglu að bera „rafvarnarvopn“ samkvæmt nánari ákvörðun ríkislögreglustjóra, hefur umboðsmaður óskað eftir upplýsingum frá forsætisráðherra um tiltekin atriði.

Í lok bréfs umboðsmanns til forsætisráðherra segir að þótt það geti verið háð mati hvers ráðherra hvað teljist mikilvæg stjórnarmálefni, þannig að rétt sé að þau séu borin upp í ríkisstjórn, verði vart annað ráðið en að forsætisráðherra gegni ákveðnu hlutverki í þeim efnum þannig að viðhlítandi samráð og samhæfing ráðherra sé tryggð. Áður en umboðsmaður tekur afstöðu til framhalds málsins biður hann í þessu ljósi um svör við eftirfarandi eigi síðar en 3. mars nk.:

1. Þess er óskað að forsætisráðherra lýsi, m.t.t. svars dómsmálaráðherra, afstöðu sinni til þess hvort téð stjórnarathöfn þess síðarnefnda hafi falið í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingu eða að öðru leyti verið þannig vaxin að bera hefði átt málið upp á ríkisstjórnarfundi áður en reglunum var veitt gildi eða þeim hrint í framkvæmd.

2. Í ljósi þess að í starfsreglum ríkisstjórnarinnar er ekki að finna nánari afmörkun á því hvaða málefni teljist „mikilvæg stjórnarmálefni“ er þess óskað að forsætisráðherra veiti umboðsmanni upplýsingar um verklag sem kann að vera tíðkað í því skyni að tryggja að slík mál séu borin upp á ríkisstjórnarfundum í samræmi við lög.

   

  

Bréf umboðsmanns til forsætisráðherra

 

Tengdar fréttir

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um „rafvarnarvopn“

Dómsmálaráðherra spurður út í „rafvarnarvopn“