02. mars 2023

Loftbrú aftur til athugunar

Umboðsmaður óskar á ný eftir upplýsingum og skýringum frá Vegagerðinni vegna tiltekinna atriða við notkun Loftbrúar. Hún kom einnig til skoðunar á síðasta ári en í ljósi fyrirheita þá um úrbætur var málinu látið lokið.

Í áliti sínu í nóvember sl. áréttaði umboðsmaður að stjórnsýslulög heimila ekki að meðferð stjórnsýslumála sé einskorðuð við rafræna meðferð. Stjórnvöldum sem taki slíkt upp sé skylt að bjóða jafnframt upp á hefðbundna meðferð máls, nema lagaheimild standi til annars. Í ljósi þeirrar vinnu sem Vegagerðin lýsti þá að stæði yfir, við að gera handvirka afgreiðslu umsókna um styrki úr Loftbrú mögulega, var látið gott heita að tilkynna að fylgst yrði með framgangi úrbótanna.

Kveikjan að spurningunum nú er frétt um að fósturforeldrar barna í varanlegu fóstri hefðu ekki getað nýtt Loftbrú fyrir börnin. Meðal annars var greint frá því að vegna persónuverndarsjónarmiða teldi Vegagerðin sér ekki fært að leysa vandann handvirkt. Spyr umboðsmaður því, auk annars, um hvaða sjónarmið um persónuvernd komi í veg fyrir að hægt sé að beita öðrum aðferðum en rafrænum til að leysa málið. Einnig er spurt um með hvaða hætti þau, sem ekki vilja eða geta sótt um styrki úr Loftbrú með rafrænum skilríkjum, séu upplýst um að annar kostur sé í boði.

Óskað er svara fyrir 23. mars nk.

   

   

Tengdar fréttir

Annmarkar á rafrænni stjórnsýslu

Vegagerðin spurð hvort rafræn skilríki séu nauðsynleg til að nýta Loftbrú