10. mars 2023

Málsmeðferð ríkissaksóknara verulega ábótavant

Margvíslegar athugasemdir eru gerðar við meðferð ríkissaksóknara á erindi sem laut að frávísun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á kæru.

Umboðsmaður telur að málið hafi verið afgreitt á röngum lagalegum grundvelli, upphafstími kærufrests ekki verið rétt ákvarðaður, rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti og upplýsingaréttur ekki virtur. Þá lét ríkissaksóknari viðkomandi ekki vita að kæra sem hann sendi embættinu í ábyrgðarpósti hefði verið framsend lögreglustjóranum. Kærandi vissi því ekki að hún væri til meðferðar þar og átti að sama skapi ekki von á svari þaðan. 

Lögreglustjórinn vísaði kærunni frá og tilkynnti þá niðurstöðu einvörðungu rafrænt á upplýsingagáttinni island.is. Kæran var aftur á móti borin fram bréflega og ekkert gaf til kynna að óskað væri sérstaklega eftir rafrænum samskiptum vegna málsins. Þá báru gögn málsins ekki með sér að viðkomandi hefði nokkurn tímann verið tilkynnt að meðferð málsins yrði rafræn eða að hann mætti vænta þess að tilkynningar eða önnur samskipti yrðu send í pósthólf hans á island.is.

Kærandi hafði ekki aðgang að upplýsingagáttinni og gerði árangurslausar tilraunir til að fá niðurstöðuna afhenta eftir öðrum leiðum. Erindi hans til ríkissaksóknara vegna þessa var einnig vísað frá á þeim grundvelli að það væri stjórnsýslukæra sem hefði borist að liðnum kærufresti. Því er umboðsmaður ósammála. Ekki hafi verið heimilt að miða kærufrest við daginn sem tilkynning um frávísun kærunnar var birt í pósthólfinu.

Umboðsmaður hefur ýmislegt við afgreiðslu ríkissaksóknara að athuga. Erindið hafi ekki verið stjórnsýslukæra, viðmið um upphaf kærufrests hafi ekki verið í samræmi við lög og ekki hafi verið heimilt að vísa erindinu frá á þeim forsendum að kærufrestur hafi verið liðinn. Þá hafi ríkissaksóknara borið, á fyrstu stigum málsins, að tilkynna viðkomandi að kæra hans um brot hefði verið framsend lögreglustjóranum. Eftir ákvörðun lögreglustjóra hefði ríkissaksóknara borið að kanna nánar fullyrðingar kæranda um að hann gæti ekki kynnt sér ákvörðunina. Jafnframt hefði embættinu borið að gera reka að því að lögreglustjóri tæki beiðni um afhendingu hennar til afgreiðslu og að hann gætti framvegis að leiðbeiningarskyldu sinni við rafrænar tilkynningar í sambærilegum málum.

Mælst er til þess að ríkissaksóknari taki málið aftur til meðferðar ef eftir því verði leitað og taki þá mið af sjónarmiðunum í álitinu. Einnig var það sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til upplýsingar.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11551/2022