22. mars 2023

Reykjavíkurborg hættir gjaldtöku eftir afskipti umboðsmanns

Í um 9% tilfella, á síðasta ári, lauk málum hjá umboðsmanni með því að stjórnvöld leiðréttu fyrri ákvörðun sína eða tóku mál upp aftur. Þannig var 41 mál leiðrétt og 9 endurupptekin eftir að umboðsmaður grennslaðist fyrir um þau í kjölfar kvartana sem honum bárust.

Nýlegt dæmi um slíkt er frá Reykjavíkurborg þar sem ákveðið var að hætta að rukka handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða fyrir afnot af bílastæðahúsum borgarinnar. Umboðsmanni barst kvörtun yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs að endurgreiða ekki gjald sem handhafi slíks korts hafði greitt í bílastæðahúsi Ráðhúss Reykjavíkur.

Í kjölfar beiðni um upplýsingar og skýringar greindi borgarstjóri umboðsmanni frá því að borgin líti svo á að undanþága umferðalaga frá greiðsluskyldu í tilviki handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða eigi við um bílastæðahús. Borgin harmaði að þetta gjald hafi verið innheimt frá gildistöku umferðarlaga 1. janúar 2020. Því hefði nú verið hætt. Viðkomandi yrði endurgreitt og ef fleiri sambærileg erindi bærust þá yrði gætt að jafnræðissjónarmiðum við afgreiðslu þeirra.

   

   

Mál nr. 11961/2022

 

Tilkynning Reykjavíkurborgar