27. mars 2023

Svar fjármálaráðherra við spurningum um birtingu vinnuskjala

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur veitt skýringar og svör við spurningum umboðsmanns vegna tiltekinna ummæla í tilkynningu ráðuneytis hans um birtingu vinnuskjala.

Í svarinu kemur m.a. fram að það leiði af sérstökum þagnarskylduákvæðum að stjórnvaldi sé að jafnaði ekki heimilt að veita aukinn aðgang að upplýsingum sem undir slík ákvæði falli, enda ráði stjórnvaldið ekki sjálft þeim hagsmunum sem þagnarskyldunni sé ætlað að vernda. Stjórnvöldum beri að meta í hverju tilviki hvort skjal falli, í heild eða að hluta, undir sérstök þagnarskylduákvæði laga. Ráðuneytið telji ekki að birting slíkra skjala að frumkvæði stjórnvalds sé alfarið óheimil, jafnvel þótt hún sé miklum takmörkunum háð m.t.t. orðalags viðkomandi ákvæðis. Mál sem varði gögn sem kunni að vera undirorpin sérstakri þagnarskyldu fái ætíð efnismeðferð, enda felist í sérstökum þagnarskylduákvæðum að stjórnvaldi beri að framkvæma mat á málsatvikum í hvert sinn.

Þá segir að niðurstöður úrskurðarnefndar upplýsingamála hafi áhrif á meðferð stjórnvalds á sambærilegum málum, með þeim augljósa fyrirvara að hvert mál verði að skoða sérstaklega. Með staðfestingu nefndarinnar á því að um beiðni um tilteknar upplýsingar fari samkvæmt sérstöku þagnarskylduákvæði laga og stjórnvöldum sé óheimilt að veita aðgang að þeim, sé stjórnvöldum þröngur stakkur sniðinn þegar komi að því að endurskoða fyrri afstöðu til þess hvort tiltekin gögn verði birt, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði.

Framhald málsins er til skoðunar hjá umboðsmanni.

  

  

Bréf fjármálaráðherra til umboðsmanns

 

 

Tengd frétt

Spurt um birtingu vinnuskjala