27. apríl 2023

Óheimilt að innheimta gjald fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá

Ekki er heimilt að rukka fyrir rafrænan aðgang að gögnum úr fyrirtækjaskrá líkt og gert hefur verið.

Kvartað var yfir þeirri afstöðu ráðuneytis og skattyfirvalda að gjaldfrjáls uppfletting í fyrirtækjaskrá einskorðaðist við svo kallaðar grunnupplýsingar. Í áliti sínu komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að eftir breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá mætti ekki taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skránni.  

Árið 2017 var lögum um fyrirtækjaskrá breytt á þá leið að engin gjaldtaka skyldi vera fyrir rafræna uppflettingu skránni. Það er álit umboðsmanns að undir fyrirtækjaskrá falli allar þær upplýsingar sem þar ber að skrá, þeirra á meðal þær upplýsingar sem mælt er fyrir um að skrá skuli í öðrum lögum. Þá báru gögn um meðferð frumvarps til laga um þessa breytingu á gjaldtökunni á Alþingi það ekki með sér að fyrirvari hefði verið gerður um áframhaldandi gjaldtöku fyrir rafrænan aðgang að slíkum upplýsingum. Afstaða ráðuneytisins var því ekki í samræmi við lög. Mælist umboðsmaður til að reglugerð um gjaldtöku fyrirtækjaskrár, hlutafélagaskrár og samvinnufélagaskrá verði tekin til endurskoðunar með hliðsjón af sjónarmiðum í álitinu.

  

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11711/2022