25. maí 2023

Annmarkar á ráðningu aðstoðarskólastjóra

Sveitarstjórn fór hvorki eftir eigin reglum né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar  aðstoðarskólastjóri var ráðinn.

Samkvæmt reglum sveitarfélagsins var leitað eftir tillögu frá skólastjóra um hvern skyldi ráða en ekki gætt að því hvort tillaga hans uppfyllti kröfur um efni og form. Sá hængur var á henni að skriflegan rökstuðning skorti og því óljóst á hvaða mati tillagan byggðist. Hvað snerti mat ráðgjafarfyrirtækis, sem sveitarstjórnin studdist við, þá tók það aðeins til hluta tilgreindra krafna um hæfni og fól því ekki í sér heildstæðan samanburða á umsækjendum. Aukinheldur vantaði umsögn fræðslunefndar, líkt og reglur sveitarfélagsins kváðu á um að skyldi liggja fyrir, en þrír af fimm í henni töldu sig ekki getað tekið afstöðu til umsækjenda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Sveitarstjórnin bætti hvorki úr þessum annmörkum við meðferð málsins né aflaði sjálf frekari upplýsinga og því var ákvörðun hennar ekki byggð á fullnægjandi grunni.

Var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að leita leiða til að rétt hlut þess sem kvartaði en að öðru leyti yrði það að vera dómstóla að meta réttaráhrif annmarkanna ef út í það færi.

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11998/2023