30. maí 2023

Áfrýjunarnefnd bar að taka afstöðu til hæfis og huga að meðferð gagna

Meðferð áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema á gögnum máls var ekki viðunandi. Þá hefði nefndin, í kjölfar þess að fjalla um hæfi prófdómara, átt að taka afstöðu til athugasemda við hæfi þeirra tveggja sem tilnefndu hann og skipuðu.

Kvartað var yfir úrskurði nefndarinnar vegna hæfis þremenninganna. Hún hafði fjallað um hæfi prófdómarans en taldi utan valdsviðs síns að fjalla um hæfi hinna tveggja þar sem málið hefði enn verið til meðferðar hjá HÍ.

Umboðsmaður benti á að ákvarðanir um hvort starfsmanni beri að víkja vegna vanhæfis væru liður í meðferð stjórnsýslumáls og því almennt ekki kæranlegar fyrr en mál er til lykta leitt. Í ljósi þess að nefndin hafði tekið afstöðu til hæfis prófdómarans yrði að leggja til grundvallar að hún hefði litið svo á að þeim þætti málsins væri lokið. Því hefði henni borið að taka afstöðu til þess hvort málsmeðferðin sem leiddi til tilnefningar hans og skipunar hefði verið í samræmi við lög, þ.m.t. til hæfis hinna tveggja. Jafnframt hefði nefndin átt að lýsa afstöðu sinni til þess hvort úrlausn rektors um hæfi þremenninganna hefði átt að liggja fyrir.

Þá gerði umboðsmaður margvíslegar athugasemdir við meðferð gagna hjá áfrýjunarnefndinni vegna málsins og að ekki hefði verið farið að upplýsingalögum í þeim efnum. Nefndin hefði aðeins getað veitt takmarkaðar skýringar á niðurstöðunni með vísan til þess að ekki sæti sama fólk enn í henni. Umboðsmaður fann einnig að því að þáverandi formaður hennar hefði notað netfang lögmannsstofu til samskipta við meðferð málsins. Það vekti spurningar um varðveislu gagna m.t.t. trúnaðar- og þagnarskyldureglu. Þá væri efnislegt misræmi milli skjals sem birt hefði verið á vef Stjórnarráðsins sem úrskurður í málinu og samsvarandi undirritaðs skjals sem sú sem kvartaði hefði fengið. Þrátt fyrir ábendingar hefði þetta ekki verið leiðrétt.

Mæltist umboðsmaður til að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema tæki málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Fyrir sjö árum vakti hann athygli ráðherra á því að varsla og almennt utanumhald nefndarinnar á gögnum hefði ekki verið fullnægjandi og var gripið til tiltekinna ráðstafana af því tilefni. Var ráðuneytinu því sent álitið nú til upplýsingar.

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11793/2022