Þar sem föngum hefur nú verið gert kleift að hringja milliliðalaust í Fangelsismálastofnun, dómsmálaráðuneyti og umboðsmann og fyrirhugað er að skrá og skýra verklag við símtöl og bréfaskipti þeirra hefur umboðsmaður ákveðið að ljúka athugun sinni á samskiptamöguleikum fanga við stjórnvöld.
Í eftirlitsheimsókn í fangelsið á Hólmsheiði í mars sl. virtist sem fangar gætu ekki hringt í yfirvöld fangelsismála af deildum og í almennu rými þyrftu símtöl að fara í gegnum fangaverði. Umboðsmaður óskaði því eftir upplýsingum um hvort svona væri í pottinn búið og þá skýringum á því sem og hvort svona ráðslag væri tíðkað í fleiri fangelsum. Einnig var spurt út í meðhöndlun bréfa fanga til umboðsmanns og stjórnvalda.
Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðuneytið greindu frá því að þetta hefði verið skoðað sérstaklega eftir fyrirspurn umboðsmanns og ákveðið að opna fyrir öll símanúmer úr símum á deildum. Þá verði áréttað að fangar eigi rétt á að setja bréf sín sjálfir í umslög og að fangaverðir megi ekki lesa bréfin án leyfis. Þá uppýsti ráðuneytið að þess verði farið á leit við Fangelsismálastofnun að komið verði á fót skráðu verklagi sem taki bæði til símtala og bréfaskipta fanga. Það verði skýrt og kynnt föngum reglulega þannig að þeim verði réttindi sín ljós að þessu leyti.
Þótt umboðsmaður láti athugun sinni lokið minnir hann á nokkur atriði um réttindi fanga og beinir því til fangelsismálayfirvalda að hafa ábendingarnar í huga, m.a. við endurskoðunina á verklaginu.
Bréf umboðsmanns til fangelsismálayfirvalda
Tengd frétt
Samskiptamöguleikar fanga við stjórnvöld og umboðsmann til skoðunar