Árið 2022 voru skráðar 528 kvartanir hjá umboðsmanni, 18 mál voru tekin upp að eigin frumkvæði og farið í sex heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits. 556 mál voru afgreidd á árinu og álitin urðu 59, þar af 20 án tilmæla.
Þótt stjórnvöld fari almennt að tilmælum frá umboðsmanni kemur stöku sinnum fyrir að þau gera það ekki. Óvenju mörg slík tilfelli standa út af borðinu nú eða fjögur, þar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Þjóðminjasafn Íslands og Ríkissaksóknari eiga hlut að máli. Þegar stjórnvald lýsir sig ósammála tilmælum umboðsmanns, fer ekki að þeim og hlutaðeigandi sættir sig ekki við það, þarf að jafnaði að bera þann ágreining undir dómstóla þar sem umboðsmaður hefur ekki réttarskipandi vald. Á síðastliðnu ári var þriðjungur álita án tilmæla en þau fela samt sem áður einnig í sér niðurstöðu sem getur haft almenna þýðingu eða leiðbeiningargildi fyrir stjórnsýsluna.
Algengasta umkvörtunarefnið í fyrra laut að töfum á afgreiðslu mála líkt og oftast hefur verið. Þá koma málefni opinberra starfsmanna, þar á eftir mál er lutu að sköttum og gjöldum, aðgangi að gögnum og upplýsingum, almannatryggingum og heilbrigðismálum.
Reglulega leiðrétta stjórnvöld ákvarðarnir sínar eða taka mál upp aftur í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns. Sú var raunin í 9% tilfella árið 2022. Þannig var 41 mál leiðrétt og 9 endurupptekin eftir að grennslast var fyrir um þau vegna kvartana. Þetta er áþekkur fjöldi og hlutfalla og árið áður. Meðalfjöldi kvartana undanfarin fimm ár er 470 en sl. þrjú ár 546. Það sem af er 2023 bendir til að metfjöldinn frá 2021, þegar kvartanirnar voru 570, kunni að verða sleginn í ár.
Frumkvæðiseftirlit og OPCAT
Átján frumkvæðismál voru stofnuð á árinu og tíu þeirra jafnframt lokið innan þess. Þá var fjórum eldri málum einnig ráðið til lykta. Þegar málum lýkur í kjölfar upplýsinga frá stjórnvöldum um að aðhafst verði með einhverjum tilteknum hætti fylgist umboðsmaður með framganginum og grípur í taumana ef þörf krefur.
Farið var í sex heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits umboðsmanns, þar af tvívegis á Litla-Hraun, og gefnar út fjórar skýrslur. Hinar eftirlitsheimsóknir ársins voru í fangelsið á Kvíabryggju, í fangageymslur lögreglunnar á Norðurlandi eystra bæði á Akureyri og Siglufirði, geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og öryggisvistun á vegum Akureyrarbæjar.
Starfssvið og hlutverk umboðsmanns Alþingis
Í upphafi skýrslunnar fjallar umboðsmaður nokkuð um álitaefni sem komið hafa upp viðvíkjandi starfssviði hans gagnvart Alþingi og stofnunum þess og nefndum. Minnt er á að starfssvið hans tekur hvorki til starfa Alþingis né stofnana þess ef frá er talin heimild til að benda þinginu á meinbugi á lögum. „Þótt samskipti embættisins við Alþingi og nefndir þess séu að jafnaði greið mætti engu að síður sjá fyrir sér að þingmenn, einkum þeir sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, væru betur upplýstir um hvernig störf þeirra horfa við verkefnum umboðsmanns að þessu leyti.“
Hnykkt er á því að umboðsmaður sé ekki hluti stjórnsýslunnar en misskilnings á stöðu hans verði stundum vart hjá stjórnvöldum og jafnvel alþingismönnum. Ein af birtingarmyndum þess séu væntingar um aðkomu að frumvarpsvinnu á vegum ráðuneyta. Færst hafi í vöxt að umboðsmaður sé settur á lista yfir umsagnaraðila og þess jafnvel vænst að fulltrúar hans taki þátt í fundum í því sambandi. „Hér skal því haldið til haga að umboðsmaður lítur svo á að hann hafi ákveðna fræðsluskyldu gagnvart stjórnsýslunni og bregst því yfirleitt vel við beiðnum úr þeirri átt um samskipti. Á hinn bóginn geta stjórnvöld ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður komi með virkum hætti að frumvarps- og reglugerðarvinnu eða mótun á innra verklagi þeirra.“
Önnur birtingarmynd misskilnings um hlutverk umboðsmanns eru hugmyndir um að fela honum eftirlit með hinum eða þessum málaflokkum með það fyrir augum að slík tilhögun geti komið í stað þess eftirlits sem talið er nauðsynlegt innan stjórnsýslunnar sjálfrar. „Í ljósi þess trausts sem umboðsmaður nýtur, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi, kann að vera freistandi að fela embættinu ný verkefni sem fela í sér milliliðalaust eftirlit með tilteknum málaflokki. Sé hins vegar gengið of langt í þá átt getur það leitt til grundvallarbreytingar á hlutverki umboðsmanns og þá um leið að minni kröfur séu gerðar til stjórnsýslunnar í þá veru að hún tryggi sjálf að farið sé að lögum og vandaðra stjórnsýsluhátta gætt.“
Önnur helstu atriði
Fjallað er um úrskurðarnefndir og það sem kalla má ábyrgðarleysisvæðingu sem þær geti leitt af sér. Huga þurfi sérstaklega að þeim áskorunum sem fylgi því að skilja á milli stjórnunar- og eftirlitsheimilda æðra stjórnvalds, einkum ráðuneytis. Þótt eftirlits- og úrskurðarhlutverk hafi að einhverju eða öllu leyti verið falið sjálfstæðri nefnd beri ráðuneyti eftir sem áður ábyrgð á málaflokknum og þar með ýmsu sem lýtur að störfum og aðbúnaði slíkrar nefndar.
Líkt og undanfarin ár er rafræn stjórnsýsla ofarlega á baugi sem og samvinna og samráð ráðuneyta sem segja má að sé sígilt stef í ábendingum og tilmælum umboðsmanns. Ítarlegri umfjöllun um allt ofangreint og margt fleira úr starfseminni árið 2022 getur svo að líta í skýrslu umboðsmanns sem að þessu sinni er einnig gefin út á ensku í nokkuð styttri útgáfu.
Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2022
Annual Report (Excerpts)