12. október 2023

Skoða bar starfsaðferðir og verklag lögreglu

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefði átt að fjalla efnislega um kvörtun sem laut að starfsaðferðum og verklagi lögreglu en ekki vísa henni frá á þeim forsendum að starfssvið nefndarinnar tæki ekki til umkvörtunarefnisins.

Í kvörtun til nefndarinnar voru gerðar athugasemdir við að enginn lögreglumaður hefði verið viðstaddur þegar frásagnar manns með fötlun var aflað vegna óútskýrðra áverka á honum. Maðurinn gæti ekki tjáð sig með hefðbundnum hætti og hefðu réttindagæslumaður fatlaðs fólks og yfirþroskaþjálfi á vinnustað mannsins tekið svokallað könnunarviðtal við hann án aðkomu lögreglu. Þar með hefði ekki verið tryggt að hlutlægnireglu væri gætt. Þá hefði lögregla ekki lagt mat á hvort grípa hefði átt til sérstakra ráðstafana vegna fötlunar viðkomandi eða undirbúið viðtal og viðbrögð sín með tilliti til þess.

Umfjöllun umboðsmanns afmarkaðist við afgreiðslu nefndarinnar á kvörtuninni en ekki ákvörðun lögreglustjórans að hætta rannsókn og staðfestingu ríkissaksóknara á því. Ekki varð betur séð en athugasemdir í kvörtuninni til nefndarinnar hefðu m.a. lotið að starfsaðferðum og verklagi lögreglu og þá án tillits til afstöðu hennar til sakamálarannsóknarinnar. Ekkert hefði þar með verið því til fyrirstöðu að nefndin tæki athugasemdirnar til skoðunar án þess að það fæli í sér endurmat á beitingu rannsóknarúrræða eða afstöðu til þess hvort málið hefði átt að sæta frekari rannsókn. Athugasemdirnar hefðu því ekki alfarið fallið utan starfssviðs nefndarinnar.  

Árið 2018 setti ríkissaksóknari fyrirmæli um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaðan sakborning og/eða brotaþola er að ræða, en þá höfðu atvik þessa máls þegar átt sér stað. Líta má til þessara fyrirmæla við meðferð annarra sakamála sem varða fólk með fötlun og því taldi umboðsmaður ekki tilefni til að beina tilmælum til nefndarinnar um að taka málið fyrir aftur ef eftir því yrði leitað. Mæltist hann hins vegar til að meðferð mála yrði framvegis hagað í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Einnig voru gerðar athugasemdir við málsmeðferðartíma nefndarinnar. Bæði hvað snerti afgreiðslu málsins sem og þann tíma sem það tók að svara umboðsmanni en margítreka þurfti beiðni um gögn. Minnt var á skyldu stjórnvalda að svara umboðsmanni með fullnægjandi hætti og að dráttur á því geti haft áhrif á undirliggjandi hagsmuni hverju sinni. 

   

    

Álit umboðsmanns í máli nr. 11750/2022