30. október 2023

Mótsögn í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála

Úrskurðarnefnd velferðarmála reisti úrskurð sinn ekki á réttum lagalegum grundvelli þegar hún staðfesti ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar um að vísa frá áfrýjun vegna beiðni um sérstakan húsnæðisstuðning sem hafði verið synjað. Nefndin kvað upp tvo úrskurði í málinu sem ekki fóru saman.

Að áliti umboðsmanns var sá starfsmaður sveitarfélagsins sem synjaði umsókninni ekki bær til þess og við því hefði nefndin átt að bregðast með öðrum hætti en hún gerði. Hún hefði komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurði sínum í málinu að starfsmaðurinn hefði ekki haft heimild til fullnaðarafgreiðslu málsins. Engu að síður hefði nefndin talið að þá hefði frestur til að skjóta málinu til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar byrjað að líða og byggt síðari úrskurð sinn á því. Á það yrði ekki fallist enda ætti sú niðurstaða sér ekki stoð í lögum. Þá hefði sá farvegur sem nefndin hefði lagt málið í með fyrri úrskurði sínum átti þátt í því að viðkomandi fékk ekki úrlausn fjölskylduráðs sveitarfélagsins um umsókn sína, en nefndin hafi heimildir til að afgreiða umsóknina. Sú afstaða nefndarinnar í síðari úrskurði hennar, að ákvörðun deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs hefði haldið réttaráhrifum sínum þrátt fyrir valdþurrð, var í berlegu ósamræmi við fyrri niðurstöðu hennar að fjalla ekki efnislega um kæruna heldur vísa henni frá. Úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið reistur á réttum lagalegum grunni. 

Mæltist umboðsmaður til að nefndin tæki málið fyrir aftur ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11797/2022