17. nóvember 2023

Réttmætt að synja umsækjanda um lögreglunám en rökstuðningi áfátt

Rökstuðningi ríkislögreglustjóra fyrir að synja umsækjanda í tvígang um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu var áfátt en ekki eru gerðar athugsemdir við niðurstöðuna. Þar sem synjunin hafði verið rökstudd frekar við meðferð málsins hjá umboðsmanni og gögn verið afhent mæltist hann ekki til endurupptöku heldur lét nægja að beina því til embættisins að taka framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu.

Synjanir ríkislögreglustjóra byggðust á því að fyrir lægi viðurkenning umsækjandans á tiltekinni háttsemi og þannig hefði hann rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta. Umboðsmaður benti á að ekki væri nánar afmarkað í lögunum hvaða háttsemi gæti rýrt þetta traust og því væri ákveðið svigrúm til að meta það. Ríkislögreglustjóri hefði lagt heildstætt mat á umsóknirnar og ákvarðanirnar um að hafna þeim væru því ekki í ósamræmi við lög.

Rökstuðningurinn hefði aftur á móti verið til þess fallinn að valda misskilningi og því ekki náð því markmiði að viðtakandinn gæti skilið ákvörðunina og betur fellt sig við hana. Minnti umboðsmaður á að fólk væri saklaust uns sekt þess hefði verið sönnuð og koma hefði þurft ótvírætt fram að ákvarðanirnar hefðu ekki byggst á því að umsækjandinn hefði brotið refsilög. Um afhendingu gagna sagði umboðsmaður ljóst að upplýsingar úr LÖKE, málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra, hefðu varðað málið og því borið að afhenda þær líkt og ríkislögreglustjóri gerði síðar.

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11696/2022 og 11761/2022