11. desember 2023

Mistök leiðrétt og mögulegar afleiðingar athugaðar

Tryggingastofnun hefur leiðrétt mistök í samskiptum við þjónustumiðstöðvar sveitarfélaga eftir að umboðsmaður grennslaðist fyrir málið.

Meðal gagna í máli sem umboðsmaður hafði til meðferðar fyrr á árinu var bréf frá Tryggingastofnun til þjónustumiðstöðvar þar sem óskað var eftir tillögum að umönnunarmati vegna umsóknar foreldra um ummönnunargreiðslur. Þar var tiltekið að ef umbeðin gögn bærust ekki frá miðstöðinni innan tveggja mánaða yrði máli viðkomandi vísað frá. Umboðsmaður óskaði eftir skýringum á orðalaginu og hvort það væri þá háð viðbrögðum annars stjórnvalds en Tryggingastofnunar, hvort stofnunin leysti efnislega úr máli sem hæfist hjá henni með umsókn um umönnunargreiðslur.

Í svari Tryggingastofnunar til umboðsmanns kom fram að þetta væri staðlaður texti úr öðrum bréfum sem hefði óvart ratað þarna inn. Skortur á gögnum frá þjónustumiðstöð væri ekki ástæða til frávísunar og textinn ætti ekki við í málum sem þessum. Bærust gögnin að liðnum fresti væru málin tekin til umfjöllunar og afgreidd en einnig  í einstaka tilfellum lægju fullnægjandi gögn þegar fyrir. Textinn hefði verið fjarlægður úr bréfum sem send væru til þjónustumiðstöðva og kannað yrði hvort hugsanlega hefði farist fyrir að afgreiða einhver mál hjá stofnuninni á þeim grundvelli að tillaga að umönnunarmati hefði ekki borist frá þjónustumiðstöð. Í ljósi þessara skýringa og viðbragða lét umboðsmaður athugun sinni lokið.

  

  

Lokabréf umboðsmanns til Tryggingastofnunar í máli nr. F142/2023