14. desember 2023

Óskað eftir upplýsingum um gjaldtöku vegna HPV bólusetningar barna

Óskað hefur verið eftir upplýsingum og skýringum frá heilbrigðisráðherra á gjaldtöku vegna bólusetningar barna gegn HPV-sýkingum.

Umboðsmanni barst kvörtun sem laut að lögmæti framkvæmdar bólusetninga í grunnskóla gegn HPV þar sem fram kom að slíkar bólusetningar væru einungis gjaldfrjálsar fyrir börn í sjöunda bekk og yngri. Þótt ekki væru skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar upplýsti sá sem kvartaði embættið um að tekið hefði verið undir sjónarmið hans af hálfu heilbrigðisráðuneytisins þegar hann hafi leitað þangað með mál sitt og ráðuneytið greint frá því að brugðist yrði við. Í ljósi þess óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hafi þessa gjaldtöku til almennrar skoðunar og þá hvort sú athugun hafi haft í för með sér einhverjar breytingar á fyrirkomulagi bólusetninganna eða hvort fyrirsjáanlegt sé að svo verði. Ef ekki, er jafnframt óskað skýringa á því og beðið um svör fyrir 6. janúar 2024.

  

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra