28. desember 2023

Landspítali breyti verklagi vegna beiðna sjúklinga á geðdeild um gögn úr sjúkraskrám sínum

Umboðsmaður beinir því til Landspítala að breyta verklagi við afgreiðslu á beiðnum sjúklinga á geðdeild um aðgang að gögnum úr eigin sjúkraskrám. Ekki megi fylgja almennri reglu þannig að allar beiðnir falli undir sama hatt og sé hafnað á meðan sjúklingur liggi inni, heldur þurfi að meta hvert tilfelli fyrir sig.

Sjúklingur sem var nauðungarvistaður á geðdeild óskaði, í þrígang á því tímabili, munnlega eftir að fá aðgang að gögnum úr sjúkraskrá sinni. En meðal annars vegna ástands hans var ekki litið svo á, af hálfu spítalans, að þetta væru formlegar beiðnir og þær því ekki teknar til meðferðar. Þá væri það almennt ekki talið þjóna hagsmunum sjúklinga, sem glímdu við alvarleg veikindi á geðdeild, að fá aðgang að sjúkraskrám sínum á meðan þeir dveldu þar. Með þessu verklagi telur umboðsmaður að óhóflega sé þrengt að því mati sem lög gera ráð fyrir að gert sé á öllum slíkum beiðnum.

Þá greindi spítalinn frá því að fylla bæri út beiðni um afrit úr sjúkraskrá á ytri vef hans og ekki var fyllilega ljóst hvort beiðnir sem ekki væru bornar fram með rafrænum hætti væru teknar til meðferðar á spítalanum og afgreiddar í samræmi við lög. Í ljósi þessa minnti umboðsmaður á að þótt stjórnvaldi væri heimilt að afgreiða slík mál rafrænt mætti ekki synja fólki um afgreiðslu þótt það leitaði annarra leiða með erindi sín. Í ljósi sérstakrar stöðu nauðungarvistaðra sjúklinga væri jafnframt ástæða til að árétta að spítalanum væri skylt að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar hverju sinni.

Mæltist umboðsmaður til þess að beiðnir sjúklingsins um aðgang að gögnum úr sjúkraskránni yrðu teknar til meðferðar og leyst úr þeim í samræmi við sjónarmiðin í álitinu sem og að spítalinn tæki verklag sitt í þessum efnum til skoðunar.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11882/2022