05. janúar 2024

Frestun hvalveiða ekki í samræmi við lög

Útgáfa reglugerðar 20. júní sl. um frestun tímabils til veiða á langreyðum átti sér ekki nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar auk þess sem ekki var gætt að kröfum stjórnsýsluréttar um meðalhóf.

Umboðsmaður bendir á að þótt ráðherra hafi getað horft til sjónarmiða um dýravelferð við útgáfu reglugerðarinnar þá sé vernd og viðhald stofnsins meginmarkmið laga um hvalveiðar. Ekki hafi verið tekið tillit til nýtingarsjónarmiða heldur fyrst og fremst horft til velferðar dýra og þá án þess að þeir hagsmunir væru vegnir saman við grunnreglur stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis. Ráðherra hafi því skort nægilega skýra stoð í lögum við útgáfu reglugerðarinnar.

Hvað aðdragandann snertir vísar umboðsmaður til þess að Matvælastofnun hafi í maí 2023 kynnt ráðuneytinu þá niðurstöðu sína að við veiðar á árinu 2022 hefði ekki verið brotið gegn lögum um velferð dýra með þeim hætti að það kæmi í veg fyrir veiðar á komandi vertíð. Þá hafi sú afstaða ráðherra legið fyrir að ekki væru fyrir hendi fullnægjandi heimildir til að afturkalla leyfi til hvalveiða. Þótt fyrir lægi að ákveðið hefði verið að afla  álits fagráðs um velferð dýra telur umboðsmaður að það, eitt og sér, hefði aldrei getað leitt til þess að fyrirhugaðar veiðar Hvals hf. væru í eðli sínu taldar andstæðar lagareglum um dýravelferð. Fyrirtækið hafi því, að óbreyttum lögum, haft réttmæta ástæðu til að ætla að það gæti að meginstefnu haldið atvinnustarfsemi sinni áfram um sumarið.

Umboðsmaður telur að útgáfa reglugerðarinnar hafi í reynd falið í sér tímabundið bann við veiðum á langreyðum og gert Hval hf. ókleift að sinna þessari starfsemi sinni á tímabilinu. Lítur hann svo á að bannið hafi falið í sér bæði fyrirvaralausa og verulega íþyngjandi ráðstöfun m.t.t. stöðu og hagsmuna félagsins. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar beri stjórnvaldi að gæta hófs við meðferð valdheimilda sinna og ganga ekki lengra en nauðsyn beri til, jafnvel þótt fyrir hendi sé formleg lagaheimild og stefnt sé að lögmætu markmiði. Við þær aðstæður sem uppi voru, einkum réttmætra væntinga Hvals hf., verði að leggja til grundvallar strangar kröfur að þessu leyti. Aðdragandi og útgáfa reglugerðarinnar hafi ekki samrýmst þessum kröfum.

Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðherra um úrbætur vegna þessa þar sem það ástand sem skapaðist eftir útgáfu reglugerðarinnar er liðið hjá. Í álitinu er einnig tekið fram að með niðurstöðunni hafi engin afstaða verið tekin til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga hinna ólögmætu stjórnvaldsfyrirmæla. Af þeim sökum séu ekki heldur forsendur til að beina því til ráðherra að leita leiða til að rétta hlut Hvals hf. heldur verði það að koma í hlut dómstóla að leysa úr slíku ef málið yrði lagt í þann farveg.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12291/2023

  

Bréf matvælaráðuneytis 21, ágúst 2023

Skýringar matvælaráðuneytis 21. ágúst 2023