01. febrúar 2024

Orsakir tekjutaps ekki kannaðar til hlítar

Úrskurðarnefnd velferðarmála sinnti ekki hlutverki sínu sem skyldi þegar hún synjaði umsókn um makabætur á þeim forsendum að tekjuleysi hefði ekki stafað af umönnun maka heldur hefði réttur til atvinnuleysisbóta nánast verið úti þegar sótt var um makabæturnar.

Þótt umboðsmaður gæti fallist á þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að það gæti verið málefnalegt að athuga sérstaklega hvort nægileg tengsl væru á milli umönnunarþarfar maka og tekjutaps eða tekjuleysis umsækjanda, þá væri að fleiru að hyggja. Fyrirsjáanlegt tekjutap, þar sem bótaréttur væri að klárast, gæti ekki eitt og sér útilokað að meginorsök tekjuleysis þaðan í frá mætti rekja til umönnunarþarfar maka. Í ljósi fullyrðingar umsækjandans um að hann gæti ekki aflað tekna vegna langvinns sjúkdóms maka hefði nefndin átt að skoða það nánar og upplýsa hverjar væru raunverulegar ástæður tekjuleysis áður en hún tók ákvörðun.

Þar sem nefndin lagði ekki fullnægjandi mat á þau atvik sem skipt gátu sköpum mæltist umboðsmaður til þess að málið yrði tekið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 12127/2023