07. febrúar 2024

Heilbrigðisráðuneytið skoðar aðgerðir á fötluðu fólki sem leiða til ófrjósemi

Í ljósi viðbragða heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn vegna frétta af þvinguðum ófrjósemisaðgerðum á fötluðu fólki lætur umboðsmaður athugun sinni á málinu lokið að svo stöddu.

Ráðuneytið reifaði í svari sínu efni laga um ófrjósemisaðgerðir annars vegar og um legnám hjá sjálfræðissviptum fötluðum einstaklingi hins vegar. Þá var upplýst að fjölmiðlaumfjöllun og fyrirspurn umboðsmanns hefðu leitt til frekari skoðunar á málefninu. Þannig hefðu verið send erindi til þeirra heilbrigðisstofnana þar sem legnámsaðgerðir væru gerðar og óskað eftir upplýsingum um hvort til staðar væri verklag þegar sjúklingar, sem sviptir hefðu verið sjálfræði, ættu í hlut og hvernig þeir væru hafðir með í ráðum í þeim tilvikum. Einnig hefði verið óskað upplýsinga um hvort fyrir lægju klínískar leiðbeiningar varðandi legnámsaðgerðir. Þá með það í huga að önnur léttvægari inngrip væru fullreynd áður en ákvörðun um slíkt væri tekin.

Þótt athugun umboðsmanns sé lokið að svo stöddu fylgist hann áfram með málinu og óskar eftir upplýsingum um framvindu þess fyrir 1. maí nk.

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra

 

 

Tengd frétt

Ráðherra spurður út í þvingaðar ófrjósemisaðgerðir á fötluðu fólki