12. febrúar 2024

Athugasemdir gerðar við meðferð ráðuneytis á beiðni um bakfærslu flutnings aflahlutdeildar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók ekki fullnægjandi afstöðu til þess hvort lögbundnum kröfum hefði verið fullnægt þegar krókaaflamark var flutt af bátum. Eigendurnir óskuðu eftir að gjörningurinn gengi til baka því sá sem hefði skrifað nöfn þeirra undir beiðni um flutninginn hefði gert það án vitneskju og vilja þeirra.

Fiskistofa hafnaði þeirri ítrekuðu beiðni og staðfesti ráðuneytið þá niðurstöðu. Umboðsmaður taldi ekki unnt að fallast á það með ráðuneytinu að það hefði ekki verið hlutverk Fiskistofu að sannreyna að þar til bær aðili hefði beðið um að aflaheimildirnar yrðu fluttar. Þegar lög eða stjórnvaldsfyrirmæli gerðu kröfu um undirritun þá væri það til þess að tryggja persónulega staðfestingu á því sem fram kæmi. Ráðuneytinu hefði því borið að fjalla um hvort Fiskistofa hefði kannað með fullnægjandi hætti hvort eigendur skipanna hefðu í reynd sjálfir undirritað beiðnir um flutning eða hvort mistök hefðu orðið við meðferð málanna að þessu leyti. Ef svo væri þá hvaða þýðingu það hefði fyrir gildi ákvarðana Fiskistofu, eftir atvikum að teknu tilliti til annarra sjónarmiða, s.s. grandleysis þriðja aðila og röskun hagsmuna.

Mæltist umboðsmaður til að matvælaráðuneytið tæki málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við álitið. Jafnframt að skoða hvort í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum  væri nægilega tryggilega búið um yfirfærslu þeirra réttinda sem um væri að tefla.

   

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11783/2023