16. febrúar 2024

Leiðrétting upplýsinga í heimsóknarskýrslu

Í kjölfar ábendingar um að tilteknar upplýsingar í OPCAT-skýrslu umboðsmanns um öryggisúrræði á Akureyri væru ekki réttar var leitað skýringa á því og hefur þeim nú verið bætt við fyrir aftan skýrsluna. 

Hinn 17. maí 2023 gaf umboðsmaður Alþingis út skýrslu vegna heimsóknar hans í öryggisúrræði á Akureyri. Á blaðsíðu 22 í skýrslunni er fjallað um samskipti úrræðisins við nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar sem starfar á grundvelli laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Var sú umfjöllun byggð á upplýsingum sem umboðsmanni voru veittar í heimsókninni. Fyrir skömmu hafði formaður undanþágunefndarinnar samband við umboðsmann og kom því á framfæri að umræddar upplýsingar væru ekki réttar. Í kjölfarið var úrræðinu ritað bréf þar sem m.a. var óskað nánari skýringa á framangreindu. Svar við fyrirspurninni hefur nú verið birt sem fylgiskjal með skýrslunni til leiðréttingar á þeim upplýsingum sem um ræðir.

 

 

Öryggisúrræði á Akureyri - heimsóknarskýrsla