05. mars 2024

Heildstætt mat gjafsóknarbeiðna

Dómsmálaráðuneyti og gjafsóknarnefnd er bent á að meta þurfi gjafsóknarbeiðnir m.t.t. allra þeirra sjónarmiða sem máli skipta og að ekki eigi að veita því afgerandi vægi hvort sérfróður meðdómsmaður hafi tekið þátt í meðferð máls í héraði.

Kvartað var yfir synjunum dómsmálaráðuneytisins við umsóknum um gjafsókn fyrir Landsrétti. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist á umsögn gjafsóknarnefndar sem ekki taldi nægilegt tilefni til áfrýjunar samkvæmt lögum um meðferð einkamála. Umboðsmaður taldi að af umsögninni yrðu takmarkaðar ályktanir dregnar um hvaða sjónarmið hefðu búið þar að baki aðrar en að héraðsdómur hefði verið fjölskipaður, þar á meðal sérfróðum meðdómsmanni.

Umboðsmaður tók undir það að þegar reyndi á sérþekkingu væri sérfróðum meðdómsmönnum ætlað að stuðla að réttri niðurstöðu en það þýddi þó ekki að almennt væri minna tilefni til málskots í slíkum tilfellum. Þótt gjafsóknarnefnd væri heimilt samkvæmt reglugerð að líta til þess hvort sérfróður meðdómsmaður hefði tekið þátt í héraði bæri að hafa í huga að við setningu hennar hefði ekki verið fyrir hendi heimild til að kalla til sérfróða meðdómsmenn á áfrýjunarstigi, ólíkt gildandi lögum. Þetta hefði því ekki afgerandi vægi við mat á gjafsóknarbeiðnum.

Umboðsmaður benti á að framsetning reglugerðarákvæðisins sem á reyndi kynni að valda misskilningi um það heildstæða mat sem gera þyrfti á gjafsóknarbeiðni, án tillits til þess hvort mál hefði verið dæmt af sérfróðum meðdómsmanni í héraði eða ekki. Taldi hann að ekki hefði verið lagt mat á gjafsóknarbeiðnirnar m.t.t. allra þeirra sjónarmiða sem máli skiptu og niðurstaða ráðuneytisins hefði því ekki verið reist á fullnægjandi lagagrundvelli.

Beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka málin upp aftur ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr þeim í samræmi við sjónarmið í álitunum. Jafnframt benti hann því á að taka til athugunar hvort ákvæði reglugerðarinnar væri í nægjanlega góðu samræmi við núverandi réttarstöðu. 

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12284/2023

Álit umboðsmanns í máli nr. 12206/2023