15. mars 2024

Ný rafræn kvörtunarleið hjá umboðsmanni

Ný rafræn kvörtunarleið verður tekin í notkun hjá umboðsmanni í gegnum vefgáttina island.is mánudaginn 18. mars.

Í hinu nýja rafræna viðmóti koma fram leiðbeiningar um kvörtunarferlið og meðferð kvartana samhliða því að þær eru fylltar út á vefnum. Er þetta gert til að spara fólki tíma og flýta fyrir málsmeðferð. Hefur þá m.a. verið haft í huga að á hverju ári fær umboðsmaður fjölmargar kvartanir sem ekki eru skilyrði til þess að fjalla um, ekki hvað síst þegar kvörtunar- og kæruúrræði innan stjórnsýslunnar hafa ekki verið tæmd eins og það er nefnt.

Í hinu nýja rafræna viðmóti er því enn frekar leitast við að vekja athygli á þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til efnislegrar meðferðar. Meðal annars hvort kvörtunarefnið falli undir starfssvið hans, hvort skjóta þurfi þeirri stjórnvaldsákvörðun sem kvartað er yfir til æðra stjórnvalds áður en hún getur komið til kasta umboðsmanns og hvort eins árs frestur til að bera fram kvörtun sé liðinn.

Nota þarf rafræn skilríki til að skila inn kvörtun með þessum hætti. Þótt breytingin sé gerð til hægðarauka verður eftir sem áður hægt að kvarta eftir öðrum leiðum. Þannig má alltaf hafa samband við skrifstofu umboðsmann með , í síma 510-6700 eða með því að koma í eigin persónu á starfstöð umboðsmanns og fá þar frekari leiðbeiningar (Þórshamar að Templarasundi 5, Reykjavík, afgreiðslutími alla virka daga milli kl. 09:00-11:30 og 12:30 til 15:00).