20. mars 2024

Úrskurður verður að bera með sér að sjálfstæð endurskoðun hafi farið fram

Úrskurðarnefnd velferðarmála færði ekki fram fullnægjandi rök fyrir niðurstöðu sinni þegar hún staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að endurgreiða bæri ofgreiddar bætur.

Þótt umboðsmaður teldi ekki efni til að gera athugasemdir við að nefndin hefði staðfest ákvörðunina þá hafði hann ýmislegt við rökstuðning hennar að athuga. Bendir hann m.a. á að stjórnvaldsákvörðun sem þessi þurfi að vera nægilega skýr til að sá sem í hlut á geti skilið hana og þá tekið afstöðu til hennar og metið réttarstöðu sína. Gera verði þá kröfu að málsaðili fái endurútreikninga í hendur og að þeir séu honum skiljanlegir. Sama gegni um endurgreiðslukröfu sem byggð sé á slíkri ákvörðun.

Minnti umboðsmaður á að kröfur til rökstuðnings knýi á um vandaðan undirbúning ákvarðana og auki almennt líkur á því að þær séu réttar. Í forsendum úrskurðarins hafi ekki verið gerð grein fyrir fjárhæð óskertra atvinnuleysisbóta, fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem viðkomandi hefði átt rétt á, fjárhæð frítekjumarks á þeim tíma sem um ræddi eða fjárhæð rauntekna hans, auk annars. Rökstuðningur nefndarinnar hefði ekki borið nægilega með sér hvort hún hefði í reynd endurskoðað útreikninga Vinnumálastofnunar með sjálfstæðum hætti og þá hvort viðkomandi hefði notið til fulls þess úrræðis að leita til hennar. Enn fremur hefði rökstuðningurinn ekki verið til þess fallinn að viðkomandi gæti skilið hvers vegna niðurstaða málsins hafi orðið sú sem raun varð á og sætt sig við hana. Kæra hans hefði þó gefið sérstakt tilefni til þess að horfa til þessa markmiðs. Var því beint til nefndarinnar að hafa þetta í huga til framtíðar.

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 11919/2023