23. apríl 2024

Ófullnægjandi samanburður á umsækjendum um starf

Byggðasamlag gætti hvorki að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né meðalhófsreglu þegar manneskju var sagt upp störfum við skipulagsbreytingar. Þá var ekki gerður fullnægjandi samanburður á umsækjendum um nýtt starf sem auglýst var í kjölfarið þar sem litið var fram hjá faglegri reynslu.

Umboðsmaður taldi lögmætar ástæður hafa legið til grundvallar skipulagsbreytingunum og að leggja starfið niður. Hann benti hins vegar á að þótt heimilt sé að leggja niður starf eða hagræða verkefnum þá leysi það stjórnvald ekki undan því að taka afstöðu til þess hvort jafnframt sé þörf á að segja fólki upp störfum. Í gögnum málsins hefði ekki verið vikið að því hvort og þá hvernig lagt hefði verið mat á hæfni viðkomandi til þess að gegna öðru starfi í stað uppsagnar. Til að mynda með athugun á því hvort eitthvert þeirra starfa sem stofnað var til með skipulagsbreytingunum hefði getað hentað eða einhver önnur verkefni sem væru samboðin í ljósi fyrri stöðu og ábyrgðar. Taldi umboðsmaður að í reynd hefði ekkert slíkt mat farið fram og því hvorki verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né meðalhófsreglu við uppsögnina.  

Þá benti hann á að í auglýsingu á nýju starfi hefði hvergi verið vikið með beinum hætti að starfsreynslu en ekkert benti þó til að gefa hefði átt faglegri reynslu lítið eða ekkert vægi við ráðninguna. Því hefði borið að líta til þeirra persónulega eiginleika, menntunar og starfsreynslu sem almennt hefðu getað varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í nýja starfinu. Afla hefði átt þeirra upplýsinga við samanburð á umsækjendum og taka tillit til þeirra við heildarmat á hæfni þeirra. Samkvæmt gögnum málsins hefði því ekki verið að heilsa. Mæltist umboðsmaður því til að leitað yrði leiða til að rétta hlut þess sem kvartaði en að öðrum kosti yrði það að vera dómstóla meta réttaráhrif þessara annmarka á meðferð málsins.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12237/2023