05. júní 2024

Seinagangur við afgreiðslu mála hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu

Umboðsmaður átelur málsmeðferð menningar- og viðskiptaráðuneytisins í kjölfar kvartana yfir töfum á afgreiðslu mála hjá því. Ráðuneytið hafi brotið gegn málshraðareglu stjórnsýslulaga og viðbrögð þess við fyrirspurnum umboðsmanns hafi einnig ítrekað borist seint og illa.

Um er að ræða tafir á afgreiðslu ráðuneytisins á stjórnsýslukæru frá miðju ári 2021 og á öðru máli frá upphafi síðasta árs. Í eldra tilfellinu hafði umboðsmaður, í millitíðinni, lokið kvörtun vegna málsins í ljósi fyrirætlana ráðuneytisins um að úrskurða í því. Áður en til kasta hans kom hafði lögmaður málshefjanda þó margítrekað kæruna og óskað eftir upplýsingum um framgang hennar og almennt fengið þau svör að niðurstöðu væri að vænta innan skamms. Í málunum tveimur og fleiri til, hefur umboðsmaður ítrekað þurft að ganga eftir svörum og upplýsingum sem ráðuneytið segir skýrast af miklum önnum og álagi. Að sögn ráðuneytisins eru þessi tvö mál komin í forgang en úrskurðir liggi þó sennilega ekki fyrir fyrr en um mánaðamótin ágúst/september nk. 

Í þessu sambandi minnir umboðsmaður á að samkvæmt málshraðareglu stjórnsýslulaga skuli ákvarðanir teknar svo fljótt sem unnt er. Margra mánaða og jafnvel áralangar óútskýrðar tafir verði ekki réttlættar með vísan til anna og álags. Ef stjórnvald telji sig ekki geta framkvæmt þau verkefni sem því séu falin innan lögmælts frests, eða að öðru leyti í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um málshraða, verði það að gera ráðstafanir til að bæta úr.

Óskað er eftir svörum frá ráðuneytinu um hvort ábendingarnar leiði til einhverra viðbragða og þá hverra. Jafnframt að veittar verði upplýsingar um fjölda úrskurða sem það hafi kveðið upp frá 23. apríl 2023 og, sé þeim til að dreifa, hvað líði birtingu þeirra á vef Stjórnarráðsins. Er þar vísað til heimildar umboðsmanns til að hefja almenna athugun á starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds að eigin frumkvæði.

   

  

Mál nr. 12597/2024

Mál nr. 12615/2024