Taka þarf skýrari afstöðu til stjórnsýslulegrar stöðu ríkissáttasemjara og þá hvort hann er sjálfstætt stjórnvald eður ei. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns sem hann hefur sent bæði forseta Alþingis og félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Ábendingin er tilkomin vegna kvörtunar yfir frávísun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru stéttarfélags er laut að ákvörðun ríkissáttasemjara um að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Úrskurður ráðuneytisins byggðist á að ekki lægi fyrir stjórnvaldsákvörðun sem heimilt væri að kæra til þess. Umboðsmaður féllst á þá efnislegu niðurstöðu en taldi afgreiðslu ráðuneytisins á erindi stéttarfélagsins þó ekki hafa verið í nógu góðu samræmi við kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti.
Með hliðsjón af málsatvikum bendir umboðsmaður á að tilefni kunni að vera til að mæla skýrar fyrir í lögum um stjórnsýslulega stöðu ríkissáttasemjara. Þótt í opinberri umræðu hafi í sumum tilvikum verið gengið út frá því að ríkissáttasemjari væri sjálfstætt stjórnvald verði slík fortakslaus ályktun þannig ekki dregin af gildandi lögum. Hafi vilji löggjafans verið að ríkissáttasemjari nyti sjálfstæðis að þessu leyti, væri í betra samræmi við meginregluna um stjórnskipulega ábyrgð og yfirstjórn ráðherra að kveðið væri á um slíka skipan með skýrari hætti í lögum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 12230/2023