Forseti Alþingis hefur fallist á lausnarbeiðni Skúla Magnússonar frá embætti umboðsmanns Alþingis frá og með 1. október nk.
Skúli var fyrir skemmstu skipaður dómari við Hæstarétt Íslands og hverfur því á braut eftir liðlega þrjú og hálft ár í starfi. Áður en hann tók við sem umboðsmaður 1. maí 2021 var hann dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur.
„Ólíkt dómara hefur umboðsmaður ekki réttarskipandi vald. Áhrif umboðsmanns velta því í reynd á því trausti sem hann nýtur hjá borgurunum og þeim sem starfa innan stjórnsýslunnar, þ. á m. á efstu stigum hennar. Í þessu efni tók ég við ákaflega góðu búi frá þeim mönnum sem mótuðu og byggðu upp embættið, þeim Tryggva Gunnarssyni og Gauki Jörundssyni. Hefur arfleifð þeirra verið mér leiðarljós.“
Skúli segir að hver umboðsmaður hafi þó eðli málsins samkvæmt sínar eigin áherslur og á starfstíma sínum hafi hann leitast við að skapa aukið svigrúm til frumkvæðisathugana ásamt því að efla OPCAT-eftirlit embættisins sem bættist við með lagabreytingu árið 2018. „Á tiltölulega stuttum tíma hefur þessi yngsti þáttur í starfi umboðsmanns skilað markverðum afrakstri um ýmis málefni sem að mínu mati hafa fengið of litla athygli, þ. á m. um stöðu sjúklinga á lokuðum geðdeildum, frelsissviptra barna og kvenna í fangelsum. Nú síðast hefur OPCAT-einingin haft til skoðunar stöðu og aðbúnað þeirra sem dvelja á lokuðum deildum hjúkrunarheimila þar sem einkum er um að ræða aldrað fólk með heilabilun.“ Það sem m.a. einkenni þessi svið sé að tiltölulega fáar kvartanir berist frá þeim til umboðsmanns. Athygli hans eigi hins vegar ekki einungis að beinast að þeim sem hafa burði til þess að semja formlegar kvartanir eða jafnvel leita lögmannsaðstoðar til þess, segir Skúli.
„Ég vil taka fram að á starfstíma mínum hef ég ávallt getað gengið að góðum skilningi á málefnum umboðsmanns hjá forseta Alþingis svo og skrifstofustjóra þess. Hið sama á við um samvinnu mína við þingið um einstök málefni, einkum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þess. Á þessum tímamótum er mér þó efst í huga þakklæti til samstarfsmanna minna sem bæði hafa miðlað mér af þekkingu sinni á málefnum stjórnsýslunnar en þó ekki síður verið mér hvatning með óbilandi áhuga sínum og metnaði fyrir störfum og hlutverki umboðsmanns.“
Bréf forseta Alþingis til umboðsmanns