19. ágúst 2024

Makar fjárræðissviptra geta átt rétt á að val á lögráðamanni sé endurskoðað

Ef annað hjóna hefur verið svipt fjárræði verður að miða við að hitt hafi verulega og einstaklingsbundna hagsmuni af því að á milli þess og lögráðamanns þess fjárræðissvipta ríki traust og góð samvinna. Ella verður að leggja til grundvallar að viðkomandi geti haft beina, verulega og sérstaka hagsmuni af því að fá úr því leyst hvort tilefni sé til að endurskoða ákvörðun sýslumanns um val á lögráðamanni.

Á þetta reyndi þegar maður óskaði eftir að val á lögráðamanni eiginkonu hans yrði endurskoðað eftir að sá síðarnefndi hafði farið með fjárhagslega hagsmuni hennar í liðlega ár. Beiðninni var vísað frá og aðkoma eiginmannsins að lögum talin takmörkuð við að hann hefði átt kost á að tjá sig um valið en gæti ekki óskað eftir endurskoðun yrði hann ósáttur við það. Umboðsmaður benti á að það gætu komið upp aðstæður þar sem reyndi á samvinnu og samskipti maka og lögráðamanns í málum sem vörðuðu verulega fjárhagslega hagsmuni beggja aðila í hjúskapnum. Þótt maki þess sem hefur hefur verið sviptur lögræði njóti ekki fullrar aðilastöðu við val á lögráðamanni útiloki það því ekki að hann geti haft af því lögvarða hagsmuni síðar að fá slíka ákvörðun endurskoðaða. Í þessu tilviki hafi ekki orkað tvímælis að svo hafi verið. Þar sem úrskurður dómsmálaráðuneytisins var ekki í samræmi við þetta álit umboðsmanns og það tók ekki rökstudda afstöðu til þessa álitamáls, mæltist hann til að það tæki málið aftur fyrir ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr í því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

Þá minnti umboðsmaður á að hann hefði áður komið þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að taka til athugunar hvort rétt kunni að vera að skýra nánar stöðu náinna aðstandenda með tilliti til aðkomu þeirra að málefnum lögræðissviptra. Lagareglur verði að vera ótvíræðar um þessi atriði og vakti hann því athygli Alþingis á stöðunni.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12283/2023