08. maí 2025

Óskað eftir upplýsingum frá MAST

Umboðsmaður hefur í kjölfar ábendinga og umfjöllunar fjölmiðla óskað eftir upplýsingum og skýringum frá Matvælastofnun (MAST) í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á meintri illri meðferð á blóðmerum.

Í bréfi til Matvælastofnunar 15. apríl sl. var því lýst að umboðsmaður hefði undanfarið veitt athygli málum er lúta að mögulegri slæmri meðferð dýra og aðkomu Matvælastofnunar að slíkum málum. Nánar tiltekið væri um að ræða umfjöllun í fjölmiðlum um meðferð svonefndra blóðmera, sem náðst hafi á myndbandsupptöku, og viðbrögð Matvælastofnunar við upplýsingum um umrædda meðferð dýranna.

Í bréfinu er vikið að tilkynningu, sem birtist á vef stofnunarinnar 9. apríl sl., þar sem meðal annars kom fram að rannsókn á meintri illri meðferð hryssna við blóðtöku væri lokið. Þá var einnig vikið að umfjöllun Ríkisútvarpsins um málið og ákvæðum laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sem þýðingu hafa í samhengi þess.

Að endingu var þess óskað að Matvælastofnun veitti tilteknar skýringar og upplýsingar. Um þá beiðni umboðsmanns segir í bréfinu:  

  1. Óskað er eftir að Matvælastofnun veiti umboðsmanni upplýsingar um fyrirkomulag eftirlits með blóðmerahaldi, umfang þess og skipulag. Þá er þess óskað að gerð verði grein fyrir því hvernig eftirlitinu er fyrir komið í samanburði við annað eftirlit stofnunarinnar.  
  1. Óskað er eftir að Matvælastofnun geri grein fyrir því mati, sem fram fer þegar ákveðið er hvort heimildum stofnunarinnar til að beita viðurlögum skuli beitt, og þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar við það. Þá er þess óskað að veittar verði upplýsingar um hve oft stofnunin hefur beitt slíkum úrræðum síðastliðin tvö ár og í hvers lags tilfellum. Er þess jafnframt óskað að gerð verði grein fyrir framangreindu mati í ljósi þeirra atvika sem lýst er að ofan.  
  1. Óskað er eftir að Matvælastofnun geri grein fyrir því mati, sem fram fer þegar ákveðið er hvort háttsemi, sem stofnunin verður vör við, skuli kærð til lögreglu. Er þess sérstaklega óskað að gerð verði grein fyrir í hvaða tilfellum háttsemi, sem stofnunin telur að kunni að varða við refsiákvæði laga nr. 55/2013, sé þrátt fyrir það ekki kærð. Er þess óskað að veittar verði upplýsingar um hve oft stofnunin hefur kært mál til lögreglu síðastliðin tvö ár og í hvers lags tilfellum. Þá er þess að endingu óskað að gerð verði grein fyrir framangreindu mati í ljósi þeirra atvika sem lýst er að ofan.

Í kjölfar svara MAST verður ákveðið hvort tilefni sé til að taka stjórnsýslu hennar varðandi eftirlit með dýravelferð til almennrar athugunar.