Dómsmálaráðuneytið hefur verið beðið um upplýsingar um hvort og þá hvaða ráðagerðir séu uppi til að vinna bug á þeim vanda sem Útlendingastofnun virðist eiga við að etja við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt.
Fyrir skömmu spurði umboðsmaður Útlendingastofnun út í afgreiðslutíma umsókna um ríkisborgararétt sem virtist vera orðinn eitt og hálft ár. Í svörum stofnunarinnar kom fram að tafir á afgreiðslu umsókna stöfuðu fyrst og fremst af margföldun á fjölda umsókna sem ekki væri unnt að mæta með þeim fjölda starfsfólks og því fjármagni sem stofnunin hafi yfir að ráða. Verið væri að þróa nýtt upplýsingatæknikerfi sem vonir væru bundnar við að myndi stytta málsmeðferðartímann.
Í ljósi þeirrar skyldu ráðherra að sjá til þess að starfsemi stofnana sé í samræmi við lög hefur umboðsmaður óskað eftir viðbrögðum frá ráðuneytinu vegna þessa.
Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra
Tengd frétt
Útlendingastofnun beðin um upplýsingar um málsmeðferðartíma