29. ágúst 2025

Skýrsla umboðsmanns 2024 og breytingar á ásýnd

Í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2024 getur að líta fyrstu breytingar á ásýnd embættisins. Ný og endurbætt ásýnd felur í sér nýtt merki, uppfærða liti,  nýtt letur sem valið er með læsileika i huga, mynstur og fleira sem myndar saman heildstætt útlit. 

Umboðsmaður hefur hingað til ekki haft sérstakt merki eða auðkenni. Þetta merki sem nú mun auðkenna embættið samanstendur af bókstöfunum U og A, en er um leið myndgerving á andliti bergrisans sem er ein af landvættum Íslands úr skjaldarmerkinu.  

 UA logo.png

 

Sjálfstæði umboðsmanns

Í inngangi skýrslu sinnar minnir umboðsmaður á að hún sé sjálfstæð í störfum sínum, óháð fyrirmælum frá öðrum og taki því ekki við fyrirmælum um að hefja athugun eða láta það ógert. Þetta eigi líka við þegar umboðsmaður hafi eftirlit með aðstæðum frelsissviptra einstaklinga (OPCAT-eftirlit). Aftur á móti séu allar ábendingar skráðar og metnar og svo tekin sjálfstæð ákvörðun um hvort bregðast eigi við þeim og hvernig. Hún hafi orðið þess vör að ákveðins misskilnings gæti um þessa stöðu umboðsmanns.

Jafnframt bendir hún á að umboðsmaður hefur mjög víðtækar rannsóknarheimildir við athuganir sínar. Krefja megi stjórnvöld og þá einkaaðila sem falla undir eftirlit umboðsmanns um hvers kyns skýringar, upplýsingar og gögn, þar með talin viðkvæm gögn, í hvaða formi sem er. Þessar heimildir umboðsmanns eru mjög mikilvægar og stuðla að því að stjórnvöld bregðist vel við beiðnum um gögn og skýringar og að niðurstöður umboðsmanns séu byggðar á réttum grundvelli. Almennt þekkja stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga þessar víðtæku heimildir og leggja sig fram um að veita umboðsmanni aðgang að öllum gögnum viðkomandi máls. Í þau fáu skipti sem svör hafa borist seint hefur það kallað á viðbrögð umboðsmanns og hefur þá nær undantekningarlaust verið bætt úr. Nefnir umboðsmaður þetta í inngangi sínum þar sem borgarinn hefur oft á tíðum í þessum sömu málum þurft að sæta því að fá ekki svör eða viðbrögð frá stjórnvöldum áður en hann hefur leitað til umboðsmanns. Við athugun umboðsmanns hefur þá stundum komið í ljós að um mistök eða jafnvel kerfislægan galla er að ræða sem nauðsynlegt er að bæta úr.

  

Efni skýrslunnar

Uppsetningu skýrslunnar hefur verið breytt að nokkru leyti. Sem fyrr er fjallað um starfsemi umboðsmanns á liðnu ári, þ.m.t. eftirlit með aðstæðum frelsissviptra (OPCAT-eftirlit). 

Nefna má að við OPCAT-eftirlitið var starfsemi Stuðla tekin til skoðunar, einkarekin búsetuúrræði fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda skoðuð, fangageymslur voru skoðaðar sem og aðbúnaður á lokuðum deildum á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Þrjár skýrslur voru gefnar út á árinu og í þeim var fjallað um Vinakot, Klettabæ og Stuðla.  

Af frumkvæðismálum sem umboðsmaður lauk á síðasta ári má nefna athugun á framkvæmd fangelsismálayfirvalda á greiðslum þóknana til fanga fyrir vinnu í fangelsi. Var niðurstaðan sú að líta bæri á þetta sem skattskyldar tekjur og haga bæri lögbundnum skilum gjalda vegna þeirra í samræmi við það. Í öðru máli taldi umboðsmaður að skort hefði á nægilega raunhæfar og markvissar aðgerðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins til að leysa viðvarandi vanda hjá landlæknisembættinu vegna langs málsmeðferðartíma við afgreiðslu kvartana. 

Stærsti hluti þeirra mála sem bárust umboðsmanni með kvörtunum einstaklinga og lögaðila  á árinu 2024 var vegna tafa stjórnvalda á afgreiðslu mála eða erinda eða 19% heildarinnar. Því næst komu annars vegar mál vegna skatta og gjalda og hins vegar opinberra starfsmanna. 

  

UA algengustu kvartanir.png

 

Samkvæmt lögum um umboðsmann skal umboðsmaður tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef þess verður vart að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum og var það gert í fimm tilvikum. 

   

Viðbrögð stjórnvalda við niðurstöðum umboðsmanns

Í öllum tilvikum hafa stjórnvöld farið að almennum tilmælum í álitum umboðsmanns. Þau fela jafnan í sér að gera þurfi almennar breytingar á tilteknum vinnubrögðum eða verklagi eða taka einhver atriði til skoðunar með tilliti til réttarstöðu og réttaröryggis borgaranna. 

Sérstökum tilmælum var beint til stjórnvalda í 13 álitum. Í níu þeirra hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns. Tvö mál voru enn til meðferðar þegar grennslast var fyrir um stöðu þeirra, í einu hafði ekki verið leitað aftur til stjórnvalds og í einu tilviki var ekki farið að sérstökum tilmælum umboðsmanns. 

  

UA vidbr stjv 2024.png

  

Í vefútgáfu skýrslunnar eru lifandi hlekkir á nær öll mál sem fjallað er um í henni. Með því að smella á  númer þeirra má kalla þau fram, sjá umfjöllun í heild sinni og viðbrögð stjórnvalda, hafi þau borist, við álitum umboðsmanns. 

 
 

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2024