Frumkvæðisathugun umboðsmanns á fyrirkomulagi og umfangi aðgangstakmarkana gagnvart börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilinu Blönduhlíð, sem nú er starfrækt á sjúkrahúsinu Vogi, er lokið. Brugðist hefur verið við þeirri hættu sem stafað gat af því að börn færu út um glugga á annarri hæð hússins. Er fundið að því að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr til að tryggja öryggi barnanna.
Tildrög athugunarinnar mátti rekja til fréttaflutnings síðastliðið vor af slysi sem varð þegar barn sem vistað var á heimilinu reyndi að yfirgefa það með því að fara út um glugga á annarri hæð hússins. Fram kom í svörum Barna- og fjölskyldustofu við fyrirspurn umboðsmanns að meðferðarheimilið væri skilgreint sem opið úrræði. Börn væru hvorki læst inni né stöðvuð ætluðu þau að hlaupast á brott en tilteknu verklagi væri fylgt þegar slíkt gerðist. Eftir slysið hefði vírum verið komið fyrir á glugganum og gluggakarmi til að hindra að hægt væri að opna hann til fulls.
Þar sem brugðist hefur verið við þeirri hættu sem stafað gat af því að börn færu út um gluggann er ekki ástæða til að umboðsmaður aðhafist frekar vegna þessa. Hún bendir hins vegar á að börn höfðu ítrekað farið út um gluggann áður en alvarlegt slys varð og sé það aðfinnsluvert að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr til að tryggja öryggi þeirra. Mikilvægt sé að gæta í hvívetna að öryggi barna sem vistuð séu á meðferðarheimilum á ábyrgð ríkisins, hvort sem það séu varanlegar starfsstöðvar eða til bráðabirgða. Þá var það niðurstaða umboðsmanns að úrræðið félli undir OPCAT-eftirlit með aðstæðum frelsissviptra.
Mál nr. F5/2025