16. október 2025

Óréttlættar tafir á afgreiðslu stjórnsýslukæru    

Afgreiðsla matvælaráðuneytisins og síðar atvinnuvegaráðuneytisins á stjórnsýslukæru, sem var þá enn til meðferðar í ráðuneytinu, dróst úr hófi. Ráðuneytið hafði ítrekað tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir og lýst fyrirætlunum um afgreiðslu málsins sem höfðu brugðist.

Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna dráttar á afgreiðslu málsins var meðal annars vísað til þess að málið væri einstakt, flókið og umfangsmikið auk þess sem annir hefðu tafið afgreiðslu þess. Umboðsmaður taldi afgreiðslutímann frá því að gagnaöflun lauk hvorki hæfilegan né að tafir á meðferð málsins gætu talist réttlættar. Að mati umboðsmanns voru tilkynningar ráðuneytisins um fyrirsjáanlegar tafir, ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar væri að vænta ekki í samræmi við efni og tilgang ákvæðis stjórnsýslulaga um slíkar tilkynningar. Þá væri bæði aðfinnsluvert hve dregist hefði að svara umboðsmanni og að ráðuneytið hefði, jafn oft og raun bæri vitni, gefið tilefni til að ætla að svör væru á næsta leiti þegar sú hefði ekki orðið raunin.

Umboðsmaður beinir því til atvinnuvegaráðuneytisins að hraða meðferð málsins og taka framvegis mið af sjónarmiðum í álitinu í störfum sínum. Einnig mælist hún til þess að ráðuneytið svari sér  framvegis innan hæfilegs tíma og hagi samskiptum þannig að umboðsmaður geti rækt lögbundið eftirlitshlutverk sitt.

  

  

Mál nr. 5/2025