08. desember 2025

Afturköllun ráðningar og andmælaréttur

Ákvörðun um að falla frá ráðningu ríflega þremur vikum eftir að umsækjanda var boðið starf var ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Tókst stjórnvaldinu hvorki að sýna fram á að skilyrði hafi verið til staðar til afturköllunar né gaf þeim sem hafði verið ráðinn færi á að nýta andmælarétt sinn.

Kvartað var yfir því að skólastjóri grunnskóla hefði hætt við að ráða í starf með vísan til þess að enginn umsækjenda hefði verið hæfur til að gegna því.

Umboðsmaður taldi ekki hægt að fallast á að umsækjendur hefðu mátt gera ráð fyrir fyrir því að annað bakkalárnám en á sviði uppeldis- og menntunarfræði eða tómstundafræði eða „sambærilegt“ því útilokaði þá frá starfinu. Þvert á móti hefði orðalag auglýsingarinnar gefið til kynna að einstaklingar með bakkalárpróf af öðrum sviðum kæmu til greina, svo lengi sem námið nýttist í starfinu. Ekki yrði annað ráðið en hæfni umsækjandans til að gegna starfinu hefði verið metin og hann fullnægt kröfum samkvæmt auglýsingunni. Ekki væri því hægt að fallast á að skilyrði hefðu verið til þess að afturkalla ráðninguna.

Þá hefði ekki verið upplýst að til stæði að afturkalla ákvörðunina og viðkomandi því ekki gefist tækifæri til að tjá sig um efni málsins áður en ráðningin var afturkölluð. Sama gegndi um nýjar upplýsingar sem komið hefðu fram við meðferð málsins. Það hefði borið að upplýsa um þær og veita færi á að nýta andmælarétt. Meðferð málsins hefði því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.

   

   

Álit umboðmanns í máli nr. 12958/2024