17. desember 2025

Frávísun kærunefndar útlendingamála ekki í samræmi við lög

Að áliti umboðsmanns var mat kærunefndar útlendingamála á því hvort taka ætti til meðferðar kæru sem barst að liðnum kærufresti ófullnægjandi. 

Talsmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd hafði látið hjá líða að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar innan tilskilins frests, þrátt fyrir að umsækjandinn teldi sig hafa óskað eftir því í tölvupósti sem talsmaðurinn svaraði ekki. Þegar umsækjandinn varð þess áskynja brást hún strax við en það var nokkrum dögum eftir að 15 daga kærufrestur rann út.

Umboðsmaður benti á það lögákveðna hlutverk talsmanna að tryggja réttaröryggi umsækjenda um alþjóðlega vernd og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum. Með hliðsjón af því yrði að gæta varfærni við að byggja á sjónarmiðum um að umsækjendur hefðu ekki sjálfir haft samband við Útlendingastofnun með sérstaka fyrirspurn um mál sitt. Þá yrði einnig að gjalda varhug við því að láta umsækjendur bera hallann af starfsháttum talsmanna sinna, svo sem kærunefnd útlendingamála gerði í málinu.

Þá benti umboðsmaður á að stuttur kærufrestur til kærunefndar í lögum um útlendinga kynni að skipta máli við matið, í ljósi þess að um er að ræða veigamikla undantekningu frá meginreglu stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þeim rökum sem almennt búa að baki kærufrestum gæti líka verið rétt að líta til þess tíma sem hefði liðið frá því kærufrestur rann út og þar til kæra hefði verið borin fram. Kærunefndin hafði hins vegar ekki litið til þessara atriða við mat sitt. Þá hafði kærunefndin ekki heldur lagt mat á hvort starfshættir talsmannsins hefðu þýðingu með tilliti til þess hvort veigamiklar ástæður í skilningi laga mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar þótt kærufrestur væri liðinn. Af þessum ástæðum hefði mat kærunefndar útlendingamála ekki verið nægilega heildstætt.

Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka málið til nýrrar afgreiðslu ef eftir því yrði leitað.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 12918/2024