Frávísun úrskurðarnefndar velferðarmála á stjórnsýslukæru, með vísan til þess að fullgildum fóstursamningi væri ekki til að dreifa í málinu, var ekki í samræmi við lög.
Kvartað var yfir úrskurði barnaverndarþjónustu sem hafði fellt fóstursamning úr gildi en úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kæru vegna málsins frá á þeim forsendum að lögformlegur fóstursamningur hefði ekki legið fyrir í málinu heldur einungis óundirrituð drög. Samkvæmt því hafði nefndin ekki fjallað um hvort barnaverndarþjónustan hefði mátt binda enda á umsjá, þeirra sem kvörtuðu, með barninu sem átti í hlut. Fyrir lá að um tveggja og hálfs árs skeið eða allt þar til barnaverndarþjónustan kvað upp úrskurð sinn hafði ekki verið til staðar undirritaður og skriflegur samningur um vistun eða fóstur barnsins þrátt fyrir ákvæði barnaverndarlaga þar um.
Taldi umboðsmaður að stjórnsýslukæra vegna málsins hefði uppfyllt formkröfur og borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests. Væri það mat nefndarinnar, að ekki hefði komist á fullgildur fóstursamningur, yrði að líta svo á að úrskurður barnaverndarþjónustunnar hefði verið kveðinn upp á röngum lagagrundvelli. Almennt væri það talinn efnislegur annmarki á ákvörðun stjórnvalds sem gæti leitt til ógildingar ákvörðunar. Nefndin hefði því verið bær til að taka afstöðu til þessa og þá eftir atvikum ógilda úrskurð barnaverndarþjónustunnar eða vísa málinu til nýrrar meðferðar. Var því beint til úrskurðarnefndarinnar að hún tæki málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað.
Álit umboðsmanns í máli nr. 12947/2024