A kvartaði yfir álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 skv. gjaldskrám nr. 37/1997 og 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, á húseign hennar í sveitarfélaginu, og bar brigður á lögmæti þeirrar gjaldtöku. Þá kvartaði A yfir því að ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu hefði verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskránna af nánar tilgreindum ástæðum.
Umboðsmaður taldi lagaskilyrði ekki uppfyllt til þess að hann gæti fjallað um álagningu sorphirðugjaldsins árið 1997 og takmarkaði umfjöllun sína því við álagningu gjaldsins árið 1998. Þá álagningu hafði A borið undir umhverfisráðuneytið og krafist þess að hún yrði endurskoðuð. Í afgreiðslu ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til að hnekkja gildandi gjaldskrá fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, en A var bent á að hún gæti borið álagningu gjaldsins undir sérstaka úrskurðarnefnd sem starfaði á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Í áliti sínu gerði umboðsmaður grein fyrir lagagrundvelli gjaldskrár nr. 28/1998 í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og síðar lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem leystu hin fyrrnefndu lög af hólmi. Benti umboðsmaður á að með 1. mgr. 31. gr. hinna síðarnefndu laga væri sérstakri úrskurðarnefnd falið að úrskurða í ágreiningsmálum sem risu á grundvelli laganna, þ.m.t. um framkvæmd heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga, en skv. 1. mgr. 25. gr. laganna væru ákvæði um gjaldtöku vegna veittrar þjónustu sveitarfélags hluti heilbrigðissamþykktar þess. Væri ljóst af ákvæðinu að meginreglan væri sú að sérstök úrskurðarnefnd færi með úrskurðarvald, en ráðherra færi með úrskurðarvald í sérstaklega tilgreindum tilvikum. Var niðurstaða umboðsmanns því sú að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags yrði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998, enda væri hvergi mælt fyrir um það í lögunum að ráðherra skæri úr ágreiningi um það efni. Þar sem ágreiningurinn hafði ekki verið borinn undir úrskurðarnefndina taldi umboðsmaður lagaskilyrði ekki uppfyllt til umfjöllunar af hans hálfu. Umboðsmaður tók hins vegar fram að umhverfisráðuneytinu hefði skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 borið að framsenda úrskurðarnefndinni erindi A til meðferðar svo fljótt sem unnt væri í stað þess að láta sitja við ábendingu um kærurétt til nefndarinnar.
Vegna þess þáttar kvörtunar A er laut að hæfi ráðuneytisstjóra til að annast um staðfestingu gjaldskrár nr. 28/1998 tók umboðsmaður fram að hann teldi álitamál hvort úrskurðarvald úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 næði til ágreinings um formlegt gildi staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags skv. 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Þar sem afstaða úrskurðarnefndarinnar til valdsviðs nefndarinnar með tilliti til þessa lægi ekki fyrir í málinu taldi umboðsmaður hins vegar ekki rétt að fjalla um það í áliti sínu, sbr. meginreglu 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Benti umboðsmaður á að A væri unnt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á þessu umkvörtunarefni sínu eftir að nefndinni hefði borist mál hennar til meðferðar.
Sjá tengt mál nr. 2500/1998.